Ísafjörður

Hvað er Ísafjörður? Góð spurning. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er fiskur, tónlist, skíði og fjöll. Ég held að það væri hægt að spyrja annan hvern kjamma í landinu og flestum dytti eitthvað af þessu í hug, eða allt. Nema fáfræðin sé svo mikil að vita ekki hvar Ísafjörður er. Og slíkt er til, sérstaklega sunnan Esjunnar. Nóg um það.

 

Þetta umhverfi hefur mótað Ísafjörð og Ísfirðinga frá upphafi og hér eru margir karakterar sem setja svip sinn á bæjarbraginn. Margir koma upp í hugann sem eru ómissandi; Maggút að rífa sig yfir úrslitum í síðasta leik hjá BÍ eða að Júllinn fiskaði ekki neitt, Úlfar í Hamraborg að gera alla vitlausa með frumlegum hugmyndum sem engum dytti í hug nema honum, Jónas Magg sem hefur ekki breyst neitt í þúsund ár og gerir ennþá fimleikaæfingar eins unglingur og Ingólfsbræðurnir sem smíðuðu svifdreka þar sem teikningin var viskí auglýsing á baksíðu Playboy. Alltaf koma fleiri sterkir inn eins og Gunnar frændi sem bókaði Metallicu í Höllinni en sló því á frest vegna samræmdu prófana. Það er óhætt að segja að hér séu ekki allir steyptir í sama mótið.

 

Fiskurinn er það sem hefur haldið lífi í okkur moldbúunum norður í hafi frá upphafi og heldur vonandi áfram að gera það og tónlistin hefur borað sig djúpt í sálartetrið hjá Ísfirðingum í gegnum árin og haldið okkur réttu megin línunnar. Má rekja það til stofnunar fyrsta tónlistarskóla á landinu árið 1911. Skíðin eru ómissandi þáttur í menningu okkar enda eigum við flesta Íslandsmeistaratitla frá upphafi og enginn maður með mönnum nema kunna eitthvað á skíði. Svo eigum við ólympíufara á öllum leikum sem Íslendingar hafa tekið þátt í, nema síðast. Ástæðan? Óli Árna nennti ekki að fara, taldi sig ekki nógu góðan. Hvað er meira kúl en að nenna ekki að fara á ólympíuleikana? Já, Ísfirðingar sem ekki renna sér eru litnir hornauga. Fjöllin eru ómissandi þáttur sem mótar umhverfið og ramma Ísafjörð inn þar sem undankomuleiðin er bara ein; opið Atlantshafið í norðri.

 

Þegar Mugison kom með á hugmynd að gera eitthvað skemmtilegt á Ísafirði, lá beinast við að hrista þessa þætti saman og búa til góðan og sterkan kokteil sem bragð væri af. Niðurstaðan var tónleikar vegna hefðarinnar, í Skíðavikunni vegna þess að þá er tryggt stuð í bænum, í gömlu fiskvinnsluhúsi vegna sögunnar og fjöllin í kring setja punktinn yfir i-ið.

 

Verið velkomin á Ísafjörð. Hér á engum að leiðast.

 

Heljarskinn

Myndir frá Ísafirði

Meira áhugavert efni