Andri Pétur Þrastarson | þriðjudagur 14. febrúar 2012

1001 hátíð.

Í sandblásinni eyðimörk á norðurhjara Afríku skríður úlfaldalest hægt og bítandi yfir sandöldurnar eins og langferðabíll á leið yfir Þorskafjarðarheiðina sálugu.  Sólin skín miskunnarlaust á túrbanvafin höfuð ferðalanganna og hitinn slær þá bylmingshöggum líkt og þrælahaldararnir börðu þræla sína án afláts forðum.  
En hvað er það sem fær menn til að fórna svalri golunni og köldum þægindum fyrir tilbreytingalausa eyðimerkursvækjuna? Jú samkvæmt ævagamalli goðsögn þá er í miðri eyðimörkinni að finna sígrænan sælureit, og í þessari eilífðar vin, standa soldánar sveiflunnar á hverju ári fyrir trylltri tónlistarhátið, þar sem 1001 ævintýri kemur saman og dansar fram á rauða nótt.
Þeir fundu hinsvegar aldrei þessa tónlistarhátíð, enda ekki til, aðeins skálduð upp af örvæntingafullum úlfaldasölumanni sem var ólmur í að selja síðustu skepnurnar.  Vesturlandabúarnir auðtrúu enduðu sína daga grafnir í stærsta sandkassa jarðar.  Úlfaldasölumaðurinn knái lét hinsvegar gamlan draum rætast,  notaði nýfengnu díneurnar sínar í flugmiða frá Alsír til Ísafjarðar, og að loknu 12 tíma flugi skellti hann sér beinustu leið á hina einu, sönnu, goðsagna kenndu tónlistarhátíð, Aldrei fór ég suður.  
Á meðann hann dvaldi í faðmi fjallra blárra varð hann svo “innspíraður” af hinum íslenska reddum essu anda að þegar hann kom til heimalands síns(klæddur í lopapeysu með barðastóran hatt á höfði) fylgdi hann hinu vestfirska fordæmi og stofnaði hina árlegu أنا لم يذهب الجنوب. tónlistarhátð.  Sem því miður hvarf í sandskafl með öllum sínum gestum fyrsta árið, og hefur ekki sést síðan.  Ahmed Basma tókst þrátt fyrir það á sínum stutta starfsferli sem skemmtikraftur að  verða vinsælasta Mugison eftirherma sunnan við miðbaug. 
(Boðskapurinn með þessari sögu er að sjálfsögðu þá að ef þú verður ekki á Ísafirði um páskana þá er hætta á því að þú týnist í sandsskafli(og ekki treysta úlfaldasölumönnum)).

P.S. Engir úlfaldar meiddust við gerð þessa pistils.