Ágúst Atlason | sunnudagur 25. mars 2012

AFÉS 2012 varningur í Vestfirsku versluninni!

Hér koma nokkur orð frá henni Matthildi Helgadóttur Jónudóttur og söluhópnum góða, en Aldrei fór ég suður hefur kappkostað við að vera með svalan varning til sölu í ár, sem og í fyrra:

 

Margir sem farið hafa á rokkhátíðina Aldrei fór ég suður hafa keypt bol eða merki til minningar um frábæra skemmtun og til að styrkja hátíðina. Frá fyrstu hátíð hafa verið seldir bolir og barmmerki en í fyrra var stofnaður sérstakur söluhópur til að gera söluna markvissari og til að auka úrvalið. Þetta hefur tekist ágætlega og í fyrra komu fram nokkrar nýjungar s.s. gítarneglur, eyrnalokkar, hettupeysur og fleira sem rann út eins og heitar lummur. Í ár verða skemmtilegar nýjungar í boði sem kynntar verða á allra næstu dögum. Forsala á varningi verður í Vestfirsku Versluninni og hefst salan strax í þessari viku og nýjar vörur munu detta inn um leið og þær koma úr framleiðslu. Vestfirska verslunin er til húsa að Aðalstræti 26 í miðbæ Ísafjarðar.

 

Við viljum hvetja fólk til vera snemma á ferðinni og tryggja sér varning því við erum með takmarkað upplag. Að kaupa söluvarning er líka frábær leið til að sýna þakklæti ykkar fyrir þessa dásamlegu fríu tónleika.  Allir græða á því, hátíðin fær pening upp í kostnað og þið fáið ótrúlega flotta vöru.

 

Eða eins og Mugison sagði „Maður gerir ekki rassgat einn“

 

Rokkknús frá söluhópnum með von um lífleg viðskipti!