| föstudagur 11. apríl 2014

ALDREI FÓR ÉG SUÐUR OG KRAUMUR BJÓÐA UPPÁ RÁÐSTEFNUPALLBORÐSUMRÆÐUMÁLÞING…HA?

 
Síðustu árin höfum við í Aldrei fór ég suður hópnum lagt áherslu á að auka við upplifun hátíðargesta og boðið uppá ýmsar uppákomur fyrir utan hina einu sönnu rokkhátíð. Í stuttri upptalningu mætti nefna myndlistarsýningar, uppistandskvöld, spurningakeppni og pallborðsumræður svo fátt eitt sé nefnt. Hið síðastnefnda er orðið að föstum punkti í hátíðarhöldunum en núna í ár verður það í áttunda sinn sem við höldum einhvers konar málþing um tónlist og tónlistariðnaðinn. Þessi fundur tónlistarmanna og annarra hefur notið mikilla vinsælda en þó verður að nefna það í framhaldi að það sem helst stendur í vegi fyrir almennri gleði með ráðstefnuna er að finna henni almennilegt og lýsandi nafn.
 
Er þetta málþing, ráðstefna, pallborðsumræður, stefnumótunarfundur, hugarflug eða heilahristingur? Eða bararáðstefnupallborðsumræðumálþingsfundarstefnumót…? Við höfum ekki hugmynd! Endilega látíð okkur vita ef þið finnið gott nafn á fundinn, eða réttara sagt á tegund fundarins. Árlega kemur nefnilega upp ný yfirskrift og nýtt nafn. Þannig höfum við kynnt helstu málefni líkt og "Hvar er draumurinn?", "Ég stend á skýi", "Ég kemst í hátíðarskap" og "Hvað er svona merkilegt við það?". 
 
Við höfum stofnað til samtals meðal áhugafólks sem og atvinnufólks í tónlist um málefni sem snerta þeirra umhverfi og margt annað. Jafnvel allt milli himins og jarðar. Þannig höfum við rætt um textasmíðar, aðildarfélög tónlistarmanna, sjálfsþurftarbúskap, stafræna útgáfu, félagsheimilin, hvers vegna stelpur rata ekki eins í hryntónlist eins og strákar og svo mætti lengi telja. Margir hafa tjáð sig um þessi mál; Þröstur Jóhannesson, Kata í Mammút, Gunnar Tynes í múm, María Rut umboðsmaður Hjálma og Ásgeirs Trausta, Högni í Hjaltalín, Mugison, Silla í Mr. Silla, Sigtyggur Baldursson, Berglind Häsler í Prins Póló og Óttarr Proppé. Segja má að hinn síðastnefndi eigi heiðurinn af fyrsta málþinginu, en þar ræddi Óttarr á góðum fundi í Tjöruhúsinu um sænsku hljómsveitina ABBA.
 
Og hvað ætlum við að ræða í ár? Jú, í ár er yfirskriftin "Þó líði ár og öld" þá munum við taka upp þráðinn með útgáfu framtíðarinnar. Hvert stefnum við á innlendum markaði í útgáfu á tónlist? Hvernig eigum við að bregðast við þeim fréttum að í Japan eru bílaframleiðendur hættir að framleiða bíla með geislaspilurum? Er vínilplatan hinn stóri sannleikur eða bara rómantík?
 
Þó að vissulega megi stinga á kýlum í bransanum þá er mikilvægt að búa til samræðugrundvöll. Margt af þeim málefnum sem rædd hafa verið á okkar fundum hafa skilað sér inn til aðildarfélaga, inn á borð útgefenda og svo fr. Sömuleiðis hafa fundirnir hrundið af stað allskonar samstarfi milli tónlistarmanna, vinasambandi og mögulega ástarsambandi. 
 
Það er því með miklu stolti sem við í Aldrei-hópnum ásamt vinum okkar hjá Kraumi kynnum ráðstefnupallborðsmálþing árins, sem hefur þetta hryllilega formlega og fráhrindandi nafn en er svo fáránlega skemmtilegur fundur sem öllum er opinn. ÞÓ LÍÐI ÁR OG ÖLD verður í umsjón Eiríks Arnar Norðdahl rithöfundar og Kristjáns Freys Halldórssonar trommuleikara og fer fram á föstudaginn langa. Nánari tími, staðsetning og dagskrá verður tilgreind í byrjun næstu viku.