Kristján Freyr Halldórsson | mánudagur 9. apríl 2018

ÁVARP ROKKSTJÓRA

Kæru vinir,

nú þegar rykið er að falla eftir fimmtándu Aldrei fór ég suður hátíðina sem haldin var hér á Ísafirði um páskana þá á ég erfitt með að vera ekki pínu meyr. Jafnvel örlítið væminn. Ég ætla þó að reyna að halda kúlinu. Ég er nú einu sinni rokkstjórinn, hann á ekki að vera að grenja í beinni.

Á bakvið hátíðina stendur um 20 manna hópur. Hópurinn tekur sig saman að hausti og þá kemur í ljós hversu margir í þessum hópi eru til í að vera memm hverju sinni. Blessunarlega er það varla neinn sem helst hefur úr lestinni og er því þessi hópur orðinn gríðarsterkur og samheldinn. Sumir í hópnum eru æskuvinir en það er þó mun meiri breidd í honum. Allir eiga það sammerkt að eiga hér rætur eða búa hér og finna hjá sér ástríðuna að halda þessa fallegu hátíð á ári hverju. Þetta er einu orði sagt stórkostlegur hópur.

Fyrir utan þessa verkstjórn eru það fjölmargir aðilar sem leggja hendur á plóg á hverju ári. Þetta er einstaklingar og hópar sem eru algjörlega ómissandi í þessu verkefni. Á hverju ári er það hópur góðra kvenna sem búa um rúmin fyrir alla popparana sem við bjóðum vestur, Menntaskólinn og Hótel Ísafjörður hýsir okkar fólk á hverju ári. Einn mikilvægur hópur stýrir morgunmat fyrir tónlistarfólkið á hverjum morgni, annar sem sér um veitingar í baksviðsaðstöðu, Tjöruhús-fjölskyldan hefur séð okkur fyrir veitingum fyrir okkar fjáröflun frá okkar fyrsta ári, fjölmargir koma að uppsetningu ljósa, hljóðkerfis og sviðs og svo er það starfsfólkið hjá Kampa sem tæmir skemmu sína nokkra daga fyrir páska og lánar okkur húsið. Það er ekki sjálfgefið og ljóst að það hefur mikil áhrif á gæði hátíðarinnar.

Aukinheldur er það urmull af fólki sem m.a. hjálpar okkur að búa til varning, selja fyrir okkur varninginn, Efnalaugin hjálpar okkur að halda öllu hreinu og fínu, Palli Lofts er alltaf til staðar, Gummi á bílaverkstæðinu, Laugi á kranabílnum, strákarnir á flugvellinum, staffið í Hamraborg og Gamla bakaríinu, snillingarnir hjá Fjarðaneti, íþróttafélögin á svæðinu, áhaldahúsið, Hafnir Ísafjarðarbæjar og bæjarstjórnin, Dóri og Sigurlaug á Húsinu og Gunnar Bjarni sem hannar alltaf fyrir okkur allt efni. Endalaust af fólki lánaði okkur hluti og í raun hjálpar okkur á hverju ári. Þó svo að ég sé svo galinn að hafa byrjað að telja hér upp - þá er það þó þannig að allir íbúar Ísafjarðarbæjar og nágrannabyggðalaga koma að hátíðinni á einn eða annan hátt.

Loks eru það fyrirtækin sem styðja við bakið á okkur og gera okkur kleift að halda þessa rokkhátíð alþýðunnar þar sem við rukkum engan aðgangseyri og allir eru velkomnir. Kampi, Orkubú Vestfjarða, Samskip, Landsbankinn, 66°Norður, Orkusalan, Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og Air Iceland Connect eiga heiður skilinn að vera með okkur ár eftir ár. Bílaleigan Avis, Hótel Ísafjörður, Snerpa, frábært samstarf við RÚV og Rás 2 sem streyma þessu á hverju ári, Nettó, Tjöruhúsið, Gata, Fjarðanet, Jakob Valgeir eru einnig traustir bakhjarlar á ári hverju og í ár studdu Isavia og ÓB ærlega við bakið á okkur líka. Þetta er allt ómetanlegt.

Ég get svo svarið það að hvert sem ég hringdi og bað um aðstoð, ég fékk varla að klára setninguna. Allir eru mættir. Allir eru til í slaginn.

Svo eru það allar þessar hljómsveitir og íslenskt tónlistarfólk sem heldur uppi gleðinni. Ég ber endalaust mikla virðingu fyrir öllu því fólki sem býr til tónlist á Íslandi. Þau eru alltaf til þegar við hringjum og reynum að plata þau vestur um páska og ávallt verður til einhver blússandi galdur. Ég dýrka alla íslenska tónlist. Það er líka frábært að komast upp með það að bjóða uppá jafn fjölbreytt prógramm á Aldrei fór ég suður. Hvergi annars staðar sérðu Friðrik Dór hita upp fyrir Une Misére eða Strigaskór nr. 42 spili á milli Glowie og Ladda.

Allir þeir sem ég hef nefnt hér til sögunnar - allir þeir sem ég gleymdi mögulega að nefna hér - auk allra þeirra sem komu sem gestir á svæðið (við vorum að slá enn eitt metið í gestafjölda á svæðinu) hafa verið eins og ein samstillt túrbínuvél sem keyrði stuðið áfram alla páskana. Stuðið var til staðar og allir skemmtu sér fallega. Við eigum þeirri lukku að fagna að vera í góðu samstarfi við lögregluyfirvöld, slökkvilið og aðra sem hjálpa okkur að gera þessa hátíð örugga og skemmtilega fyrir okkar gesti.

Í ofanálag skartaði Ísafjörður sínu fegursta og það var ekki hægt að vera í fýlu - ef manni á annað borð hefði dottið það í hug.

Takk Aldrei fór ég suður!

Takk Ísafjörður!

Takk mamma og pabbi fyrir að líta eftir mér!

Takk Aldrei-gestir 2018! Svo lengi sem þið haldið áfram að brosa, þá höldum við áfram gleðinni. Þið eruð stórkostleg!

Kv,

f.h. Aldrei fór ég suður

Kristján Freyr rokkstjóri