Andri Pétur Þrastarson | fimmtudagur 17. mars 2011

Aldrei fór ég suður 2003 bis 2011

Hvað hugsum við um þegar við heyrum þessi orð, Aldrei fór ég suður?  Lagið með Bubba? varla... eitthvern sveitung sem hefur aldrei farið úr sínum vestlæga firði? Frekar, en ekki alveg.  Hvað með: Mestu og best stemmdu rokkhátíð á vora ástkæra föðurlandi og þó víða væri leitað?  BINGÓ!

Í huga Mugisons og meðferðarmanna hófust meldingar um að halda þessa merku hátíð árið 2003, og það sem byrjaði sem lítill snjókúla er nú orðinn jafnoki vatnajökuls hvað mikilfengleika varðar, og virðist ekki vera að stoppa.  Hátíðin hefur átt sína hápunkta, og að sjálfsögðu sína lágpunkta líka(lesist sem Blonde redhead).  En stemmingin sem hefur einkennt hátíðina hefur aldrei vikið fyrir fílúpúkanum alræmda sem á það til að poppa upp þegar gamnið stendur sem hæst. 

Ég hef tekið þátt í þessari hátíð frá fyrstu tíð, bæði sem áhorfandi og þáttakandi,  þegar ég var fyrst viðstaddur fannst mér reyndar candy floss-ið mun áhugaverðari heldur en tónlistaratriðin, en það hefur sem betur fer vaxið af mér.  Hver einasta hátíð hefur skilið eftir sig sælar minningar, hvort sem það er að taka undir með söng Appollo, dansa við Orphic Oxtra, fara í matarpásu þegar Ingó spilar(lol jk) eða fara í sleik með undirspili frá Sudden Weather Change þá er alltaf eitthvað brakandi ferskt á hverri hátíð.

Í seinni tíð bættust við málþing í Edinborg, forleikur á krúsinni og varð það ekki til að minnka stuðið.  Enda er AFÉS fyrst og fremst stuðhátíð, stuð og kærleikshátíð.  Tveir dagar af friði og tónlist, já ég sagði það, Aldrei fór ég suður er okkar Woodstock.

Með hækkandi sól og straumi aðkomumanna kemur ný hátíð, meiri tónlist, meira stuð og minni fýla.  Engin efnahagsleg lægð, díoxín mengun eða kjarnorkuslys á eftir að megna að koma í veg fyrir það að Ísafjörður um páskanna 2011 verður THE pláss til að vera á!