Snorri Örn Rafnsson | mánudagur 2. mars 2015

Aldrei fór ég suður 2015 – Alveg að fara að gerast!

Svona í tilefni af því að það fer að bresta á með einu stykki Aldrei fór ég suður,  þá finnst okkur upplagt að taka smá forskot á sæluna með því að kynna eithvað af því frábæra tónlistarfólki sem mun gleðja okkur ótæpilega um páskana, og hlýða á tóndæmi.

Hemúllinn


Þau okkar sem eru pínu eldri en tvævetur muna sjálfsagt eftir Hemúlunum úr múmínálfunum.


Góðlegar, en kannski pínu þröngsýnar verur sem voru jafnan í einhverjum yfirvaldsstöðum í samfélaginu og með söfnunaráráttu á háu stigi. 


Kannski minna þekkt fyrir tónlistargáfu og frábæra sviðsframkomu eins og okkar Hemúll. 
Okkar hemúll heitir Arnar Snæberg Jónsson og  kemur frá Hólmavík.
Hann hefur mikla tónlistargáfu og frábæra sviðsframkomu, en minna er vitað um söfnunaráráttuna.


Hann spilaði fyrir okkur á Aldrei í fyrra við góðan orðstír og hann ætlar að gera allt brjálað í ár.

 

 

Mugison
Einn af forkólfum hátíðarinnar mun stíga á sviðið í ár og taka nokkur af sínum frábæru lögum.


Hann Örn Elías Guðmunsson, eða Mugison,  ákvað fyrir mörgum árum ásamt pabba sínum,  honum Mugga hafnarstjóra að það væri kannski ekki svo vitlaus hugmynd að halda svona smá festival á páskunum á Ísafirði.


Afraksturinn var eins og við vitum öll: Aldrei fór ég suður: Rokkhátíð alþýðunnar.


Klárlega besta og frábærasta músíkfestival allra tíma!


Allavega á páskunum fyrir vestan...


Mugison vill ekki bara vera á bak við tjöldin á hátíðinni. Hann hefur oft stigið á svið og alltaf þegar hann gerir það á Aldrei þá gerist eithvað brjálað!