Aldrei fór ég suður | föstudagur 2. apríl 2010

Aldrei fór ég suður hefst í dag!

Þá er hátíðin gengin í garð og bresta mun á með Rokkhátíð alþýðunnar kl. 18.00 síðdegis. Þjófstartað var í gær með miklu fyrirpartíi þar sem Mið-Ísland, Morðingjar og Reykjavík! skemmtu troðfullri Krúsinni og vilja aðstandendur þakka öllum sem mættu og sömuleiðis blaðinu Reykjavík Grapevine sem buðu uppá dagskrána í samvinnu við okkur hjá Aldrei fór ég suður.

Kl. 13.00 í dag hefjast í Edinborgarhúsinu pallborðsumræður um tónlist og tónlistariðnaðinn þar sem margir af þeim poppurum sem koma munu fram á hátíðinni ræða þann heim vítt og breitt. Allir eru velkomnir á þessa dagskrá og mun hún eins og áður segir hefjast uppúr kl. 13.00 í Bryggjusal Edinbogarhússins.

Kl. 18.00 hefjast svo herlegheitin í KNH skemmunni og þeir sem munu koma fram í dag eru eftirfarandi:
Baunirnar, Pollapönk, Ingó og veðurguðirnir, Jitney boys, Óminnishegrar, Rúnar Þóris, Bróðir Svartúlfs, Skúli Þórðarson, Morðingjarnir, Mugison, Hudson Wayne, hjálmar og Bloodgroup.

Athugið að þetta er ekki endanleg röð á atriðunum, hún verður þó birt og staðfest í dag, en taka má það fram að hátíðin hefst á barnvænum nótum því Pollapönkarar stíga fyrstir á stokk. Við hvetjum því barnafólk sem og alla aðra að mæta við setningu Aldrei fór ég suður 2010 í skemmunni kl. 18.00 í dag!