| laugardagur 19. apríl 2014

Aldrei fór ég suður minninganna PLÚS fimm hlutir til að gera á Ísafirði um páska- Óli Dóri

Ég labba í gegnum mannhafið, í fjarska heyri ég lagið um gúanóstelpuna óma úr farsíma, úti er bylur en inni er bilað.  Ég er staddur á bestu tónleikahátíð í heimi, Aldrei fór ég suður minninganna...

Það er engin hátíð í heiminum eins og Aldrei fór ég suður. Þarna blandast saman hinir ýmsu aldurshópar og hið ólíkasta fólk í rafmagnaðri stemmingu sem virkar eins og þú sért staddur á gamaldags sveitaballi, bransahátíð og einhverju allt öðru í senn. Allir í stuði og allir til í hvað sem er.

 

Ég var beðin um að velja mína eftirminnilegustu Aldrei fór ég suður hátíð, eitthvað sem er ógjörningur. Þegar ég loka augunum og hugsa til baka eru allar bestu minningar af hátíðinni búnar að mynda eina súperhátíð í huga mér. Ég sé Dóra frænda syngja Shaking the Blues Away, ég er staddur upp á sviði í stresskasti að spila á þriðju hátíðinni 2006, ég sé bónorð á tónleikum Reykjavík!, Bubba gaula “langa dimma vetur” og trylltan Pétur Magg kynna næsta atriði. Minningarnar eru óteljandi. Þannig er Aldrei fór ég suður aldrei alveg eins, en alltaf frábær.

Ég hef farið á allar hátíðirnar fyrir utan tvær. Árið 2008 asnaðist ég til að hanga í Reykjavík, sem var ömurlegt, og ári seinna var ég staddur í Tennessee í skiptinámi.

 

Með átta hátíðir undir beltinu má ég til með að mæla með fimm hlutum til að gera á Ísafirði um páska:

- Farðu í sund og gufubað í Bolungarvík,

- Farðu í eitt elsta og besta bakarí landsins Gamla Bakaríið

- Borðaðu á Tjöruhúsinu, þú færð ekki betri fisk!

- Farðu í partý með heimamanni. Ísfirðingar hafa í gegnum tíðina verið þekktir fyrir að halda hress partý

- Mættu snemma í skemmuna!

Hér er grein sem vefritið mitt, Straum.is (www.straum.is), birti um hátíðina í fyrra. Þrátt fyrir að hafa verið yfir sig hrifinn af hátíðinni þurfti greinarhöfundur því miður að svíkja gefið loforð í greininni, vegna anna við nám:

Alltaf fer ég vestur! (http://www.straum.is/alltaf-fer-eg-vestur/)

---

Óli Dóri mun þeyta skífum á Húsinu að lokinni AFÉS dagskrá laugardagskvöldsins. Endilega kíkið á kauða þar og smellið á hann fimmu.