Ágúst Atlason | fimmtudagur 8. mars 2012

Aldrei fór ég suður og nýtt húsnæði!

Frá Rokkstjóra:


Þær stórkostlegu fréttir voru að berast að rokkhátíðin Aldrei fór ég suður hefur fengið nýtt heimili. Eigendur Skipanausts hafa lánað Aldrei fór ég suður húsnæði sitt til að halda hátíðina. Við aðstandendur hátíðarinnar höfum í mörg ár horft á Slippinn með dreymandi augum  og því er það okkur mikil gleði að færa þessar fréttir.

Aðal hindrunin okkar hingað til á því að vera í Skipanausti er sú staðreynd að þetta er slippur og því er húsið ekki með gólf sem hentar til tónleikahalds. Á þessu vandamáli fannst góð lausn og hefur Eimskip tekið að sér að flytja vestur á Ísafjörð gámafleti og lána hátíðinni til að útbúa gólf í Skipanaust. Þessi lausn og rausnarlegt framlag Eimskipa til hátíðarinnar gerir okkur mögulegt að vera í Skipanausti.

Húsnæði Skipanausts er á suðurtanga Eyrarinnar á Ísafirði og verður gólfflötur tónleikanna um 500 fermetrar. Mikill kostur við húsnæðið okkar nýja er aðgengi tónleikagesta og aðstaða í kringum húsið og vonum við að nýtt hús hátíðarinnar eigi eftir að gleðja ykkur jafn mikið og okkur.

Enn og aftur viljum við þakka aðstandendum Skipanausts og Eimskip fyrir rausnarlegt framlag til hátíðarinnar okkar!