Haukur S. Magnússon | mánudagur 20. febrúar 2017

Alþýðan þarf sitt rokk

Brestur brátt á með hátíð

-Næg bílastæði fyrir alla!

-Óheftur og ókeypis aðgangur alþýðu manna!

-Frábær félagsskapur!

-Fölskvalaus gleði!

-Ýkt góð tónlist (bæði titrandi tæknó og rífandi rokkenróll o.m. fl.)!

-Eftirsóknarverður varningur!

-Skrum, fals, fúsk og auglýsingamennska í lágmarki!

-Stuð, fjör, frændsemi og allskonar gott í hámarki!

-Plokkfiskur!

-Súpa!

-Rækjur!

-O.m.fl.!

Alþýðan getur loksins glaðst við, fagnað og farið að hlakka til, því nú er dagljóst að hennar eina sanna rokkhátíð – Aldrei fór ég suður – mun óumdeilanlega fara fram í ár, í frábæru húsnæði sem hefur gefið góða reynslu og með frábærum músíköntum að spila og góðum mat í boði og allskonar öðru skemmtilegu líka. Já, alþýða, þú last rétt: Aldrei fór ég suður 2017 er rétt handan við hornið og þér er guðvelkomið að fara hlakka til!

Aftur í Kampaskemmunni

Nánar tiltekið, þá mun hátíðin yfirtaka Ísafjarðarbæ og nærsveitir dagana 13.-16. apríl. Líkt og í fyrra fer hún að mestu fram í skemmu rækjuverksmiðjunnar Kampa við Ásgeirsgötu á Ísafirði (mikilvæg ábending: líklega væri skynsamlegt, ef þú púnktaðir dagsetningarnar niður í þartilgerða vasabók eða Fílófax, jafnvel gætirðu hent í „áminnara” í símanum).

Nú hefur margverðlaunuðum rannsóknarblaðamönnum Aldrei.is ekki enn tekist að afla áreiðanlegra vísbendinga um hvaða tónlistarfólk mun koma fram á Aldrei fór ég suður 2017, en heimildarmenn okkar herma þó að ýmsir snillingar héðan og þaðan hafi þegar heitið því að koma fram á hátíðinni og leggja allt í sölurnar til að skapa sem mest og best stuð í rækjuhúsinu góða.

Hamslaus gleði

Rokkstjórinn Kristján Freyr Halldórsson getur vart hamið sig af gleði og spenningi yfir þessu öllu, enda gegnheill stuðningsmaður hátíðarinnar frá fyrsta degi, auk þess sem hann hefur nokkuð góða hugmynd um hverjir munu koma þar fram í ár „Það var hreinlega dýrðlegt að vera í Kampaskemmunni í fyrra,” segir Kristján.

Metnaðarfullt samfélagsverkefni

„Húsnæðið sem Kampi lætur okkur í té hentar vel að öllu leyti. Mjög vel staðsett á eyrinni, hæfilega rúmgott og sándar rosalega vel. Við höfum verið að skoða nýjar útfærslur á húsinu því lengi getur gott batna og það verður spennandi að sjá hvað kemur úr því,” segir Kristján. „Við erum ákaflega glöð að fá færi til að endurtaka leikinn í ár. Þessi velvild Kampamanna, Jóni Guðbjartssyni og öllu hans fólki er ákaflega gleðileg og um leið undirstrikar hún að AFÉS er ekki bara rokktónleikar og djamm, heldur líka metnaðarfullt samfélagsverkefni sem virkjar Ísfirðinga og nærsveitunga til ítrekaðra stórvirkja af ýmsu tagi.”

Styttist í prógrammið

Aðspurður hverjir verði eiginlega að koma fram á Aldrei fór ég suður 2017 vill Kristján lítið láta uppi. „Uss, ég vildi ég gæti sagt ykkur það strax, það væri snilld ” segir rokkstjórinn knái og brosir í kampinn. „Eins og er get ég bara staðfest að hátíðin mun svo sannarlega eiga sér stað í ár og gott betur, í skemmu Kampafólks á Ísafirði, alveg lengst niður á höfn. Jú og að prógrammið sem við höfum verið að smíða er alveg til fyrirmyndar og það styttist í að við getum hent prógramminu í loftið,” segir Kristján og bætir við að dagskráin sé fullbókuð í ár og komust færri að en vildu.

Aldrei fór ég suður 2017 fer fram frá 13.-16. apríl þetta árið.  Það verða ýkt góðar hljómsveitir og ýmislegt annað skemmtilegt.