Ágúst Atlason | fimmtudagur 14. apríl 2011

Ársgömul grein: Nýi togarinn!

Fyrir um það bil ári birtist þessi skemmtilega grein á bb.is eftir Sigurð Friðgeir Friðriksson eða Sigga Frigg eins og við þekkjum hann. Þarna ræðir hann um fiskinn í sjónum, tækifærin sem liggja í loftinu, nýsköpun og menningarhvellinn Aldrei fór ég suður!

 

Við heyrðum í Sigga og fengum leyfi fyrir birtingu hérna. Þess ber að geta að hann Siggi er landslagsarkitekt og er með í Menningarhvelli á Ísafirði um páskana. Kíkið á atburðinn hans sem fer fram í Skipasmíðastöð Marzelíusar Suðurtanga en þar kryfur Siggi grjótvörður og setur þær í nútímalegra form, hleðslu og færir hana inn á veggi heimilissins.

 

En hérna er þessi flotta grein Sigga:

 

Nýi togarinn!

Tímarnir breytast og mennirnir með og aðrar áherslur og gildi taka yfir. Fiskurinn úr sjónum var aðal tekjulindin í sjávarbyggðum landsins og er grunnurinn að því sem byggðirnar eru í dag. Mikið af viðskiptum og störfum tengdum sjávarútvegi hefur minkað og stór hluti af þeim iðnaði flutt sig um stað. Óhjákvæmilega fylgja því miklir búferlaflutningar. 

Nú á dögum heyrum við oft orðið nýsköpun. Nýjar og ferskar hugmyndir sem eru byrjunin á nýjum tækifærum. Menningarleg nýsköpun, tónlist, myndlist, arkitektúr, bókmenntir, ljósmyndun, eða kvikmyndir. Margs konar menning getur hjálpað til við uppbyggingu og þróun. Vinsæl sena eða vinsælir atburðir geta laðað að hóp af skapandi fólki. Menning er hluti af þróun, skáldsögu af daglegu lífi sem byggir frekar á tækifærum heldur en á vandamálum. 

Tónlistarhátíðin „Aldrei fór ég suður“ er menningarhvellur, menningarleg nýsköpun. Hátíðin laðar að sér fjölbreyttan hóp fólks og tónlistarmenn sem eru mikið til að búa til nýja, ferska og skapandi hluti. Tónlistarhátíðargestir upplifa þessa menningu sterkt. Þeir snúa til síns heima eftir hátíðina með minningar frá heimsókn sinni og deila reynslunni. 

Hvað gerði menningarleg nýsköpun fyrir stórborgir eins og t.d. Liverpool, Manchester og Detroit? Þegar iðnaðurinn, sem var megin atvinnugrein allra borganna, fluttist þaðan burt og jafnvel í önnur lönd, urðu til tóm húsnæði og upp kom neyðarástand á níunda árutugnum. Áðurnefndar borgir urðu fyrir gríðarlegum neikvæðum búferlaflutningum og borgirnar töldust orðið til hugtaksins „Shrinking cities“ eins og það er kallað, sem er orðið nokkuð þekkt fyrirbæri. Heilu borgarhlutarnir tæmdust og tóm húsnæði voru til taks ódýrt eða ókeypis. Skapandi tónlistarmenn gátu nýtt sér þessi húsnæði til menningarlegrar nýsköpunar og það hefur hjálpað gríðarlega til við þróun og uppbyggingu þessara svokölluðu „shrinking cities“. 

Á níunda áratugnum og fram á miðjan þann tíunda var gríðarlegur vöxtur í menningu í öllum þessum borgum og rætur þess tímabils lifir í tónlist og menningu nú á dögum. Hip-Hop, pönk og nýbylgja blómstraði í þessum borgum og enn í dag má heyra þessa tónlist í þeim húsnæðum sem þetta var spilað. Í dag hins vegar þjóna húsin öðrum tilgangi þar sem mikil uppbygging og borgarþróun hefur átt sér stað, sérstaklega í Manchester. Tóm húsnæði gáfu ungu fólki athvarf og tækifæri til þess að skapa tónlist og annars konar menningu en var fyrir og ónýttu rýmin gerðu það að verkum að fólk fékk tækifæri. Tómar byggingar og yfirgefinn iðnaður gaf ungu fólki tækifæri til að búa til og skapa eitthvað nýtt, sem var framleiðsla á tónlist og menningu. Húsnæðin hentuðu sérstaklega vel fyrir nýja menningu, svokallaða rave og klúbba menningu. Hrjúf og hrá árif urðu að rót. 

Menningarleg nýsköpun á sér stað á minni skala í Ísafjarðarbæ en í áður nefndum borgum, en skiptir samt sem áður gríðarlegu miklu máli fyrir samfélagið. Tónlistarhátíðin „Aldrei fór ég suður“ er menningarleg nýsköpun sem færir samfélaginu tekjur og getur skipt miklu máli. Hugsanlega jafn miklu máli og togari? 

Sigurður Friðgeir Friðriksson, landslagsarkitekt.

 

Þessi lestur skilur eftir hugsun, hvað atburðir eins og Aldrei fór ég suður skipta gríðarlega miklu máli fyrir samfélag eins og á Ísafirði og á greinin aldrei betur við en nú.

 

Hafðu þökk fyrir Siggi!