Ágúst Atlason | fimmtudagur 16. mars 2017

Blaðamannafundur, Vigur og Aldrei fór ég Suðurgata!

Í gær var inkað inn samstarfið við styrktaraðila Aldrei fór ég suður á Ísafjarðarflugvelli, eins og gert hefur verið síðustu ár. Þessir aðilar eru okkar helstu styrktaraðilar og eru þeir Orkubú Vestfjarða, Samskip, 66 Norður, Flugfélagið, Orkusalan og Landsbankinn. Þá komu með fluginu blaðamenn að sunnan ásamt Rokkstjóra vorum. Boðið var upp á kringlur og kókoslengjur úr Gamla og tóku til máls Örn Elías Mugison, Kristján Freyr rokkstjóri og hún Þórdís Sif, en hún og maður hennar fluttust hingað vestur búferlum eftir að hafa unnið ferð vestur á Aldrei fór ég suður með bílaleigubíl og gistingu fyrir nokkrum árum. Eftir fundinn var haldið í Vigur með bát BoreaAdventures og sá svo Ásgeir hjá Vesturferðum um ferðina. Í Vigur tók svo Salvar Baldursson á móti okkur og leiddu okkur um eyjuna með hinum ýmsu fróðleiksmolum. Endaði svo ferðin í fjósinu hjá þeim hjónum, en það er uppsett sem veitingastaður í dag. Þar var borin fram dýrindis lambasteik og kökur og kaffi á eftir. Eftir þessa frábæru ferð var haldið aftur á Ísafjörð til að endurnefna götu eina hér í bæ, en einn af okkar dyggustu sjálfboðaliðum, hann Ásgeir Andri rótari kom með þá uppástungu að gatan sem skemman stendur við yrði endurskírð og bætt við fyrir framan Aldrei fór ég. Og því heitir gatan í dag Aldrei fór ég Suðurgata og var það afhjúpað af bæjarstjóra. 

Góður dagur og gott start, takk allir sem gerðu þetta að veruleika!

Hérna má sjá myndaalbúm frá deginum!