Kristján Freyr Halldórsson | þriðjudagur 7. mars 2017

DAGSKRÁIN ER KOMIN!

Kæru vinir,

hér kemur loks í ljós hvaða leiftrandi frábæra listafólk mun troða upp á stóra sviðinu á Aldrei fór ég suður 2017, sem eins og lög gera ráð fyrir - fer fram um páskana á Ísafirði. Stóru dagarnir í rokkskemmunni verða 14. - 15. apríl en það verður nóg um að vera í kringum þessa daga á hinum ýmsu sviðum og pöllum Ísafjarðarbæjar.

Aldrei fór ég suður heldur áfram að fylgja þeirri sérstöðu að blanda saman straumum og stefnum í tónlist, konum og köllum, gömlum sem ungum, frægum og efnilegum og allt þar á milli. Þarna sjáum við indípopp, blús, pönk, lúðrastuð, þungarokk, gleðipopp, rapp, köntrí, dramatík og dans. Allir fá eitthvað, enginn fær ekkert, einn fær ekki allt.

Í þessu myndbandi sjáum við hvernig Ísfirðingar og nærsveitungar boða stuðið um páskana. Þarna má sjá glitta í Úlf veitingamann í Hamraborg, Hr. Hammond sjálfan, Lísbet málara og snilling, Gísla bæjarstjóra Ísafjarðabæjar, Gulla Diskó, Úlf á hjólabretti, hressa unglinga, Pétur Markan módel og sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, Svövu Rán leikskólastjóra á Stuðeyri ásamt börnum sínum, Óskar frá Örnu í Bolungarvík, hressan einhyrning, Pétur Magg hinn óheflaða kynni AFÉS og síðast en ekki síst Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Við gætum ekki verið stoltari af íbúum Ísafjarðarbæjar og nágrönnum okkar og hlökkum mikið til að taka á móti gestum vestur í stuðið um páskana!