Andri Pétur Þrastarson | föstudagur 30. mars 2012

Dáldið grænt, soldið töff.

 Fimmtudaginn 29. Mars fór fram mikilvæg athöfn í undirbúningsferli Aldrei fór ég suður hátíðarinnar.  Blaðamenn allra helstu fjölmiðla landsins (fréttahaukar aldrei.is að sjálfsögðu þar á meðal) komu vestur á firði og urðu vitni að því þegar “foreldrar” AFÉS skjalfestu stuðning sinn við hátíðina.  Og staðfestu þar með opinberlega að þeir ætli að styrkja okkur með böns af monní, því það kostar víst eitthvað að hafa allt fríkeypis. 

Pabbarnir og mömmurnar sem borga að þessu sinni eru N1, Flugfélag Íslands, Landsbankinn, Orkusalan ásamt Menningarráði Vestfjarða.  Vitaskuld var haldið í hefðirnar og fallegi smiðurinn (Pétur Magg) gegndi hlutverki borðs að vanda, og var rauður dúkur á því að þessu sinni (hann var í rauðri peysu (innskot höfundar fyrir myndlíkingablinda lesendur)). 

Jón Þór rokkstjóri hélt nafnakall og fullvissaði sig um að allir væru mættir, og þar sem engum tókst að missa af fluginu fóru undirskriftir fram á meðan ljósblik myndavélanna lýstu upp flugstöðina eins og breiðgötu í Vegas. 

Var að því loknu fagnað með kringlu, snúð og kókómjólk að hætti Gamla Bakarísins. (Sem er eins og reglulegir lesendur aldrei.is vita, eitt af því sem er algjör skylda að prufa þegar á Ísafjörð er komið, og ein af aðalástæðunum fyrir því að fráfluttir Ísfirðingar eru alltaf með heimþrá.) 

 

Mugi, stjórnarformaður hátíðarinnar frá upphafi, flutti stutt ávarp og Daníel Jakobsson bæjarstjóri tók pólitíkusinn á þetta (sagðist ætla tala stutt, en stóð ekki við það) og nýtti tækifærið til að koma með tölfræði (150% aukning erlendra ferðamanna á Ísafirði) og lúxusvandamál (fleiri börn á leikskólum bæjarins) og kom meðal annars fram titill fréttarinnar þegar hann var að fjalla um ímynd bæjarins útávið.  Hann kann að koma fyrir sig orði kallinn!
Einnig var Sveinn Birkir á svæðinu fyrir hönd Inspired By Iceland verkefnisins, en þeir munu varpa út hátíðinni á netinu eins og í fyrra, en þá horfðu ekki nema 26 þúsund manns á útsendinguna. 

 

Að sjálfsögðu er vel látið við fjölmiðlahópinn, því að það væri nú erfitt að halda rokkhátíð af þessari stærðargráðu ef enginn vissi af henni. Bátsleiðin var tekin útí Vigur (heiðin var ófær) þar sem var spókað sig í veðurblíðunni, pósað fyrir ljósmyndum og tekin viðtöl í gríð og erg við aðstandendur hátíðarinnar. Hinn goðsagnakenndi Vigurbóndi  Böddi (stundum kendur við Love af gárungum) leiddi svo sneplana um eyjuna og sagði frábærlega frá fólki og sögu svæðisins.  Og segir orðið á götunni að Arnar Eggert hafi orðið svo innspíraður af einni sögunni (um sorgarsögu bónda, sem gengur nú ljósum lögum um eyjuna) að hann ætli að skrifa um hann hryllingsskáldsögu, og ætli að dúndra henni út fyrir næstu jól! Passaðu þig Yrsa!

 

Í Vigur var einnig stoppað í kaffi, og var boðið uppá nestispakka frá Bræðraborg, og er óhætt að mæla með því, enda algjör snilld þar á ferð. Mugison spilaði svo ljúfa tóna Gúanóstelpunnar undir borðhaldi, og hreif alla viðstadda með sér í söng. 

Eftir að hafa spókað sig aðeins um í veðurblíðunni lá leiðin svo aftur til Ísafjarðar þar sem Eyþór Jóvinsson og Matta söluvarningsmamma tóku á móti fréttasnápunum í Vestfirzku verzluninni og var varningur hátíðarinnar (sem er hver öðrum glæsilegri) og starfsemi Vestfirzku verzlunarinnar kynnt en hún mun opna snemma og loka seint um páskana, ásamt því að vera stútfull af hátíðarvarningi, tónlist og lifandi tónlistarflutningi.  Eða eins og Jón Þór Rokkstjóri komst svo skemmtilega að orði: Hér færðu allt sem þú þarft, ef það er ekki til hér, þá þarftu það ekki!

 

Einnig gáfu dáðadrengirnir í hljómsveitinni Klysja okkur smá (minniháttar rafmagnaða) innsýn í það sem við eigum von á frá þeim á Aldrei fór ég suður. 

Og til þess að sleppa öllum ýkjum þá lítur það út fyrir að verða ekkert nema rosaleg snilld!

 

Friður, ást og Aldrei fór ég suður

Andri P.

 

PS: Kíkið á myndaþáttinn sem fylgir þessari frétt, alls 24 flottar myndir eftir Anítu Björk Jóhannsdóttur.

A.T.H: Það er hægt að fletta í myndunum með örvunum á lyklaborðinu eftir að smellt hefur verið á fyrstu mynd, svona er nú tæknin gjööööðveik!