Snorri Örn Rafnsson | miðvikudagur 12. apríl 2017

EINN RÆKJUBORGARA TAKK!

Hver man ekki eftir því að hafa brugðið sér inn í Vitann og fengið sér kalda kóla og Rækjuborgara?
Við sem erum svo lánsöm að muna getum endurnýjað kynni okkar við þennan stórkostlega rétt í nýrri og endurbættri veitingasölu Afés. Nú og þeir sem ekki muna eftir rækjuborgaranum eða Vitanum sjálfum sökum aldurs,  skorts á aldri eða öðrum ástæðum einhverjum geta snarlega bætt úr því.
Í góðri samvinnu við eðalhjónin Jóa Torfa og Helgu Sigmunds höfum við nefnilega endurvakið og endurbætt þennan sígilda ísfirska rétt fyrir okkur öll og við þökkum þeim fyrir. Það má því með sanni segja að ,,Kombakk ársins" komi hér fram á sjónarsviðið í formi klassíska rækjuborgarans.

En þetta eru ekki einu breytingarnar á veitingasölunni okkar. 

Fyrst ber að nefna að í ár munum við selja allar okkar veitingar innandyra. Við höfum kvatt tjöldin í bili og munum hafa það kósý inni í húsakynnum Kampa með allan okkar mat og drykk.
Það er enginn annar en matgæðingurinn Guðmundur Björgvin Magnússon, sem er hrikalega fær í að elda fisk ofan í fólk í Tjöruhúsinu, sem tekið hefur skurk í skipulaginu hjá okkur og lagað það sem lagað varð og bætt við þar sem uppá vantaði.

Úrvalið er ekki svo mikið frábrugðið fyrri árum að undanskildum rækjuborgaranum. 
Hin ómissandi fiskisúpa er á sínum stað ásamt besta plokkara í heiminum öllum að sjálfsögðu.
Auk þess getum við fengið okkur samlokur og lax og alls kyns drykki til að skola þessu niður með.

Það er því ekkert annað en upplagt að mæta snemma og fá sér gott að borða og drekka fyrir tónleikana sjálfa, en veitingasalan (og reyndar öll skemman) opna klukkan 18:00 bæði kvöldin.
Vestfirskir plötusnúðar munu spila góða tónlist fyrir gesti og gangandi til klukkan 19:30, en þá mun tónlistarfólkið fara að streyma á sviðið.

Eins og þið vitið þá eruð það þið öll sem haldið þessu gangandi hjá okkur með því að versla við okkur veitingar og varning. Þess vegna finnst okkur svo mikilvægt að bjóða upp á metnaðarfullt úrval af vandaðri vöru og frábærum mat og drykk.
Við hvetjum því alla til þess að koma og skemmta sér konunglega og versla í leiðinni við okkur og þar með stuðla að áframhaldandi fjöri um komandi ár.
Þetta er nefnilega svo djöfulli gaman!