| þriðjudagur 15. apríl 2014

„Ekki vera fáviti!“ – Ágúst Atlason, hirðljósmyndari AFÉS, opnar albúmið sitt!

Í síðustu deildi ljósmyndarinn Hörður Sveinsson með okkur úrvali skemmtilegra mynda sem hann hefur skotið á hátíðinni og í meðfylgjandi partýum gegnum árin.„Aldrei fór Rass suður" - ljósmyndarinn Hörður Sveins opnar Aldrei albúmið sitt!

 

Eins og kom fram í greininni hefur Hörður verið viðstaddur langflestar AFÉS hátíðir sem farið hafa fram til þessa, en einn er sá ljósmyndari sem líklega skákar Herði í AFÉS aðsókn og skrásetningu—það er enginn annar en heimadrengurinn Ágúst Atlason. 

 

Ágúst, eða Gústi eins og hann er jafnan kallaður, hefur verið viðstaddur allar AFÉS hátíðirnar nema þá fyrstu (þá bjó hann í Danmörku) og hefur verið duglegur að skrásetja allt rokk og/eða ról sem fram hefur farið í skemmum Skutulsfjarðar síðan. Eins hefur hann verið duglegur að sinna sjálfboðastörfum hátíðinni til framdráttar: „Síðustu 3 ár hef ég unnið við hátíðina sem rit/vefstjóri aldrei.is og hefur það verið gaman,“ segir Gústi og heldur áfram: „Ég hef ekki misst af atriði í 3 ár, þar sem ég hef myndað geðveikislega mikið og finnst serían ekki heil nema það sé til mynd af hverju atriði.“

 

Heyriði það! Gústi hefur ekki misst af einu einasta atriði á AFÉS síðustu þrjú árin! Geri aðrir betur! 

 

Eftirminnilegustu hátíðina segir Gústi í sínum huga vera AFÉS 2006, þegar hann giftist ástinni sinni henni Hrefnu sama dag og hátíðin átti sér stað. „Ætli eftirminnilegasta atriðið sé svo ekki þegar Reykjavík! var að spila og Sverrir bað Dóru, falleg stund, enda eru þau vinir mínir. Annars er mjög erfitt að gera upp á milli!“

 

Aðspurður um hvað honum þyki einkenna AFÉS umfram aðrar tónleikahátíðir segir Gústi að þar sé úr mörgu að velja. „Þarna koma allir saman, ungir sem aldnir, og skemmta sér. Aldrei neitt vesen og gleði sem einkennir allt. Mér þykir afar vænt um þessa hátíð.“

 

Gústi verður staddur í Danmörku þessa páskana og er alveg eyðilagður að missa af hátíðinni í ár. Hann mun þó fylgjast með úr fjarska og býður gestum eftirfarandi ráð: 

 

„Ekki vera fáviti, eins og Pétur Magg kemur svo vel til skila sem kynnir. Njóta tímans og gera allt það sem Ísafjörður bíður upp á á þessum árstíma. Njótið verunnar!“

 

Haukur S. Magnússon