| miðvikudagur 4. apríl 2012

Feed me

Nú þegar mörghundruð gestir streyma í fallega fjörðinn okkar er eins gott að eiga nóg af mat, kaffi, kökum og öðru góðgæti fyrir alla. Það ætti nú ekki að verða vandamál, enda margt í boði og nú hafa tvö ný kaffi- og veitingahús opnað í bænum.

 

Bræðraborg opnaði í mars við Aðalstræti þar sem Langi Mangi var áður til húsa. Þær Ásgerður og Nanný taka á móti gestum sínum á heimilislegu kaffihúsi og bjóða uppá allskonar góðgæti.

Ömmulegt bollastell, hansahillur og plötuspilari setja skemmtilegan og kósý svip á staðinn.

Bræðraborg verður opin frá kl 9:00 alla helgina svo það er hægt að byrja daginn þar á dýrindis kaffi og smurðu brauði.

Það verða matarmiklar súpur og léttir réttir í hádeginu og á kvöldin, og allskonar hollustubrauð og dísætar kökur yfir daginn, og því er tilvalið að setjast inn í betri stofuna eftir góðan göngutúr eða skíðaferð!

 

Á föstudaginn ætlar trúbadorinn Svavar Knútur að skemmta gestum Bræðraborgar með ljúfum tónum frá kl 17-19, og þá er kjörið að fá sér eitthvað í svanginn, eða bara setjast niður með góðum vinum og fá sér bjór eða léttvín.

Svo er aldrei að vita nema einhverjir tónlistarmenn troði upp á laugardeginum líka.

 

Stemmningin á Bræðraborg verður létt og þægileg á kvöldin. Plötuspilarinn verður í gangi og allt voðalega heimilislegt og kósý! Endilega kíkið við!

Smellið like á Facebook síðu Bræðraborgar.

 

Annað kaffi- og veitingahús var opnað í gær; Húsið.

Húsið tekur á móti manni þegar maður kemur í bæinn. Bárujárnsklætt hús á horni Hafnarstrætis og Hrannargötu.

Bræðurnir Dóri og Teddi hafa unnið hörðum höndum í allan vetur ásamt dyggum hópi aðstoðarfólks við að gera Húsið að hinni mestu bæjarprýði.

Húsið verður opið alla helgina frá kl 11 og verður opið eins lengi og stuðið varir og leyfilegt er.

Þar verður hægt að fá mat og drykk allan daginn. Allt frá súpu, brauði og smáréttum og uppí dýrindis steikur. Og heyrst hefur að þeir bræður hafi þróað einhvern rosalegan hamborgara sem eflaust á eftir að slá í gegn.

Einnig verður hægt að fá kaffi og kökur og æðislegar vöfflur.

 

Á miðvikudagskvöld er Ísafjörður að keppa við Garðabæ í spurningakeppninni Útsvari á RÚV og verður hægt að horfa á keppnina í Húsinu, og að henni lokinni mun trúbadorinn Arnar Ólafs halda uppi stuðinu með Johnny Cash slögurum.

Inga María Brynjarsdóttir (dóttir Brynjars Viborg) verður með myndlistarsýningu í Húsinu um helgina, og eitthvert kvöldið ætla snillingarnir í The Vintage Caravan að vera með unplugged gigg!

Húsið verður með live stream útsendingu frá AFÉS, svo ef maður verður þreyttur í fótunum á öllu hoppinu er tilvalið að rölta niður í Hús, fá sér öl og fylgjast með á skjánum áður en maður fer uppeftir aftur.

Smellið like á Facebook síðu Hússins.

 

Meiri matur!

 

Næst ber að nefna að hið víðfræga veitingahús Tjöruhúsið verður með opið um helgina. Þangað ættu allir að fara sem koma til Ísafjarðar. Sjávarréttasúpan er á heimsmælikvarða, og nýveiddur fiskurinn bráðnar uppí manni eftir að hafa verið meðhöndlaður af snillingnum Magga Hauks og Rönku konu hans.

 

Á Pönnukökubarnum verður einnig opið alla páskana frá 11 til miðnættis. 

Snillingarnir Beggi og Pacas ætla að elda framandi og freistandi rétti sem eiga eftir að heilla alla bragðlauka! Þeir verða með hlaðborð bæði í hádeginu og á kvöldin. Strákarnir ætla einnig að sjá um að skemmta gestum Pönnukökubarsins af sinni alkunnu snilld! Mikil gleði á þeim bænum!

Fylgist með á Facebook eða kíkið við!

 

Á Hótel Ísafirði er rekinn veitingastaðurinn Við Pollinn. Þar er hægt að fá létta rétti, steikur, súpur og margt fleira.

Á Skírdag mun áðurnefndur Svavar Knútur skemmta matargestum. 

 

Veitingastaðurinn Vesturslóð býður uppá allskonar góðgæti, hamborgara og franskar, pizzur og fleira.

 

Og að sjálfsögðu verður opið á besta tælenska stað landsins Thai Koon og eðalsjoppan Hamraborg svíkur engan með sínar gómsætu pizzur, hamborgara, samlokur og ís.

Krílið er bílasjoppa við Sindragötu og ættu allir að prófa Sælurnar góðu! Eflaust verður opið langt frammá nótt í bílalúgunni hjá henni Grétu! Það má líka koma labbandi!

 

Prjóna-kaffihúsið Heitt á Prjónunum er staðsett við Silfurgötu og þar er hægt að fá kaffi og gómsætar kökur meðan maður skoðar nýjasta garnið eða prjónar eins og eina ermi eða svo!

 

Ísafjörður státar af tveim glæsilegum bakaríum. Hið rótgróna Gamla bakarí við Silfurtorg sem er fyrir löngu orðið landsfrægt og svo er það Bakarinn, (sem er nú oftast nefnt nýja Bakaríið).

 

Svo er alltaf hægt að fá pulsur, ís og Sómasamlokur á N1!!

 


Þannig að hvort sem þú ert í stuði fyrir létta létti, súpur, pizzu, gos, steikur, kaffi, samlokur, fisk, hvítvín, börger, bjór, kökur, kakó eða vilt bara aðeins setjast niður og fylgjast með mannlífinu… komdu þá við á einhverjum af veitingastöðum bæjarins.

Það verður tekið vel á móti þér!

 

Og að sjálfsögðu bendum við á gömlu góðu staðina í bæjunum/þorpunum allt hér í kring, tékkið á þessu!