Andri Pétur Þrastarson | föstudagur 8. apríl 2011

Fólk til að segja hæ við III

Part drei

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir hafa kvenmenn verið í minnihluta í síðustu 2 greinum, hér er dæminu hinsvegar snúið við og sjónum okkar beint mestanpartinn að kvenþjóðinni.

 

 

Matthildur Helgadóttir Jónudóttir

Framkvæmdastjóri Snerpu, hluti af söluvarningsgengi AFÉS, kvennréttindafrömuður, stuðbolti með meiru, kennir sig bæði við móður og föður á meðan hún stýrir Öldunni og fjögurra manna(kvenna) áhöfninni með dyggri hendi.

 

Sveinfríður Olga

Og þar sem við erum í sjóferðarmyndlíkingu, þá er Sveinfríður sú sem stýrir grunnskólaskútu Ísfirðinga og leiðir þannig syni og dætur Ísafjarðar í gegnum skugga efnahagsþrengina og inní bjartari framtíð.(í stuttu máli skólastjóri Grunnskólans) Go Olga!

 

Sigga Maja

Ef þig vantar söngtíma, langar að læra danspor eða þarft ábendingu um hvar menningu sé að finna er Sigga Maja þín kona.  Ósjaldan með bros á vör, og hefur ekki einu sinni fyrir því að stíga þungt niður eins og oft er títt heldur gjörsamlega svífur um.

 

Sunna Karen

Hringjeggunarkandídat og óskabarn Ísafjarðar er stúlka sem vert er að heilsa.  Ef hún er ekki að spila á balli með Benna Sig og Express, þá er hún að spila með kórnum, eða að æfa á fiðluna, eða læra heima, eða að aðstoða við dansnámskeið, eða skipta dekk á bílnum eða afgreiða sveitta burgers.  Það eru 99% líkur á því, ef þú ert staddur á Ísafirði að þú rekist á Sunnu á einhverjum viðburði, og örugglega oftar en en einu sinni.  Svo ef þú gleymir að heilsa henni einu sinni færðu örugglega annað tækifæri.

 

Siggi Sveins

Eins og ort var um hann fyrir afmælisfögnuð hans fyrir nokkrum árum síðan, ,,Siggi Sveins hann er alltaf eins.”  Siggi er eins og meitlaður í hið harðasta berg og mýktur af vindum tímans.  Fullur af framsóknar anda fer kóngur Góustaða beinn í baki gegnum lífið og forðast gúrkulykt eftir fremsta megni. 

 

Annska von Arnardal

Þriggja barna móðir(Fróði,Mía og Móa), fimm rythma sérfræðingurinn og já! já! já!-arinn Anna Sigga er kona sem er hörð í spilum og hress í spjalli.  Ef þú ert heppinn gætiru náð henni og Úlfi saman, og hugsanlega með túperað og krumpað hár.

 

Margrét Gunnars

Er kona sem kann að meta gott kaffi og góða list.  Hún á það til að taka hlutina á innsoginu, en heldur alltaf ró sinni og tekst á við verkefni með öðlingshátt og ymhyggjusemi.  Hún heldur fjölskyldu sinni sómasamlega til fara og flottri í tauinu, og er það líklegast fátítt að svo frómuð fjölskylda hafi aðsetur á kúabúi.(með fullri virðingu fyrir öllum öðrum kúbúingum).