Andri Pétur Þrastarson | föstudagur 25. mars 2011

Fólk til að segja hæ við á hátíðinni

Part eins.

 

Þegar aðkomufólk kemur inní bæ þar sem þeir þekkja fáa eða engan getur komið upp smá vægileg vandamál á förnum vegi.  Í flestum bæjarfélögum eru nokkrir einstaklingar sem eru mjög áberandi í bæjarlífinu og er maður ekki maður með mönnum ef maður heilsar að minnsta kosti ekki einum þeirra. Til byrgja brunnin áður en aðkomufólk dettur oní hann ætla ég að benda hér á nokkra einstaklinga sem vert er að heilsa ef svo skemmtilega vill til að þú mætir honum/henni.  Listinn er að sjálfsögðu ekki tæmandi, og best er ef þú heilsar bara öllum! því öll dýrin í skóginum eru vinir á Aldrei fór ég suður.


Jón Þór Rokkstjóri
Að sjálfsögðu er það rokkstjórinn sjálfur sem er einn af þeim sem þú ættir eftir fremsta megna að reyna að heilsa.  Hann er maðurinn með 2kg lyklakippuna, og er það hans hlutverk að læsa inni fíluna og opna dyrnar að stuði og gamni í tæka tíð fyrir hátíðina.

Mugi Hafnarstjóri
Ef þig vantar krassandi sögur, eða ljúfa ballöður ala Elvis Presley þá er Mugi maðurinn til þess að fara til, þegar hann er ekki að stýra höfninni með dyggri hendi, eða bjarga bössum þá er hann án efa í mega stuði hvar sem hann er.  

Hálfdán Bjarki
Er einn af jötnunum á bakvið Aldrei fór ég suður, hann hefur gert það gott sem upplýsingafulltrúi ísafjarðar og sem rokkhundur nr. 1!  Hann á ekki erfitt með að standa uppúr stórum hóp svo endilega heilsa honum þegar þið rekist á hann.

Kolla í Bónus
Ef verslað er í bónus er óhjákvæmlegt að komast hjá því að taka eftir hröðustu höndunum á afgreiðslukassanum, þeir tilheyra nefnilega henni Kollu sem hefur með elju- og útsjónarsemi orðið holdgerving fyrirmyndar kassastarfsmannsins.

Gísli og Úlfur í Hamraborg
Eins og á til að gerast þegar stuð er í hávegum haft þá getur verið gott að fá sér eitthvað sveitt um hádegisbil.  Og þá er líkur á því að þú rekist á annanhvorn af þessum galvösku bræðrum í Hamraborginni góðu.  Þjónstulundina vantar aldrei svo það er líklegt að þeir heilsi þér að fyrra bragði!

Kitti Muggs
Hinn margrómaði skíðagöngumaður og ökukennari Kitti Muggs er frægur fyrir sitt góða viðmót og sinn viðkunnanlega húmor. Hann hefur unnið fossavatnsgönguna oftar en menn geta talið og skellti sér svo í nokkrar Vasa göngur “on the side” eins og maður segir á góðri íslensku. Ef þig vantar ábendingar um það hvernig skal bera undir skíði þá er Kitti maðurinn til að spyrja.