Snorri Örn Rafnsson | föstudagur 6. mars 2015

Föstudagskvöld í Ísafjarðarkirkju

Eins og fram hefur komið á BB.is þá mun hátíðin í ár vera með töluvert öðru sniði en undanfarin ár.

Það verða ennþá tvö kvöld af tónlist, en að þessu sinni þá munum við vera með lágstemmda órafmagnaða tónleika inni í Ísafjarðarkirkju á föstudaginn langa.

Það verður boðið upp á fjögur frábær tónlistaratriði:

 

Guðrið Hansdóttir.

Fátt passar betur í lágstemmdri órafmagnaðri tónleikastemmingu en söngvaskáld frá Færeyjum.
Guðrið hefur verið lengi að, gefið út þrjár stórar plötur um allan heim, plús eina sjö laga ep plötu þar sem hún flytur lög við ljóð hins þýska Heinrich Heine.
Hún hefur búið á Íslandi undanfarin ár og samið og spilað tónlist.

 

 

Júníus Meyvant.

Það er óhætt að segja að innkoma vestmanneyingsins knáa,  Unnars Gísla Sigurmundssonar í íslensku músíksenuna hafi tekist með ágætum.
Tónlistin hans er skemtilega grípandi þjóðlagaskotin popp tónlist sem hrífur þann sem hlustar með sér.
Hann fór heim af íslensku tónlistarverðlaununum með tvö verðlaun.
Bjartasta vonin og popplag ársins.

 

 

Himbrimi.

Tiltölulega nýleg hljómsveit frá Reykjavík, þó ekki sé hægt að segja annað en að meðlimir hljómsveitarinnar séu hoknir af reynslu. 
Þau eru  Margrét Rúnarsdóttir , Birkir Rafn Gíslason, Hálfdán Árnason, Skúli Arason og loks Egill Rafnsson, sem flestir ísfirðingar ættu að kannast við.
Þau spila drama popp af bestu gerð.

 

 

Valdimar.

Hljómsveitin Valdimar stökk beint í fremstu víglínu íslenskrar popptónlistar árið 2009 þegar hún var stofnuð. Núna, þremur breiðskífum og  haug af verðlaunum síðar, ætlar söngvari ársins 2015, Valdimar Guðmundsson, að skella sér vestur og vera með okkur í gleðinni. Það verður frábært að heyra hans kraftmiklu og fögru rödd hljóma um kirkjuskipið á föstudaginn langa.