Rúna Esradóttir | laugardagur 30. mars 2013

Fréttatilkynning: Styrktartónleikar til styrktar Tónlistarskóla Kulusuk

Mugison, Lára Rúnars og fleiri góðir listamenn koma fram á tónleikum sem haldnir verða í Grænlandssetrinu að Vitastíg 1, Bolungarvík, laugardag fyrir páska. Tónleikarnir verða til styrktar nágrönnum okkar í Kulusuk á Grænalandi sem misstu eina tónlistar- og samkomuhús staðarins í bruna á dögunum. Ókeypis verður á tónleikana sem hefjast kl. 16:00 og standa í um klukkustund. Allir eru velkomnir.

Síðasta laugardaga var boðið til tónleika í Hörpu í Reykjavík til stuðnings okkar góðu grönnum og skapaðist þar mikil og góð stemning og án efa margir þar sýnt þeim stuðning í verki. Þá lét ríkisstjórn Íslands 5 milljónir af hendi rakna á dögunum.

Grænlandssetrið vill ekki láta sitt eftir liggja ef það getur orðið grönnum okkar í vestri að liði og hefur því í samstarfi við aðstandendur tónleikahátíðarinnar „Aldrei fór ég suður“ blásið til tónleika í aðstöðu sem setrið hefur fengið lánað hjá félagsmiðstöðinni að Vitastíg 1, Bolungarvík. Þess er vænst að Vestfirðingar og gestir þeirra fjölmenni og njóti ljúfra tóna og fallegra mynda um leið og þeir senda góða strauma til okkar næstu nágranna.

Þeir sem vilja styrkja söfnun til stuðnings byggingu nýs tónlistarhúss geta hringt í eftirtalin símanúmer 
Sími 901 5001 -- 1000 krónur
Sími 901 5002 -- 2000 krónur
Sími 901 5003 -- 3000 krónur

Þá er tekið við framlögum á reikning Grænlandsseturs í banka 1176, hb. 26, reikningsnúmer 805, kennitala 630310-0320, merkt Kulusuk.