Ágúst Atlason | miðvikudagur 20. apríl 2011

Fréttatilkynning frá Vá Vest hópnum

Vá Vesthópurinn, sem brátt nær 15 aldri, hefur haft það að markmiði að vinna að vímuefnaforvörnum á norðanverðum Vestfjörðum. Í því sambandi hafa ungmenni, foreldrar þeirra og aðrir verið markhópurinn. Síðustu misseri hefur Vá Vest lagt áherslu á sjálfstyrkingu ungmenna. Engu að síður vill hópurinn minna foreldra á ábyrgð þeirra og í því sambandi eiga skilaboð sálfræðinganna Jóhanns Inga Gunnarssonar og Sæmundar Hafsteinssonar, heitins, alltaf vel við:

"Hluti af öryggistilfinningu barns verður til við það að upplifa og skynja þá vernd sem felst í aðhaldi og reglum."

 

Nú líður að fjölmennri hátíð hér á Ísafirði, Skíðavikunni. Þrátt fyrir frídaga er mikilvægt að halda siðum og reglum óbreyttum, t.d. varðandi útivistarreglurnar. Þannig gilda þær reglur meðan á tónlistahátíðinni „Aldrei fór ég suður“ stendur, eins og aðra daga. Þar mega börn yngri en 12 ára ekki vera eftir kl.20:00 og ungmenni, 13 til 16 ára ekki eftir kl.22:00, nema í fylgd með foreldrum þeirra. Tímamörkin miðast við fæðingarár.

 

Nú í upphafi Skíðavikunnar mun Vá Vesthópurinn gefa börnum sérstaka fána með skilaboðum til ungmenna og foreldra þeirra. Um leið óskar hópurinn öllum gleðilegra páska.