Aldrei fór ég suður | föstudagur 11. febrúar 2011

Fréttir að vestan

Forsprakkar Aldrei fór ég suður tónlistarhátíðarinnar héldu opinn borgarafund í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á fimmtudagskvöldið. Tilefnið var að ræða um framtíð hátíðarinnar og einnig að kveða niður þær sögusagnir um að hátíðin hafi sungið sitt síðasta. Hið sanna er að hátíðin og þeir sem að henni koma virðast í sullandi bullandi stuði. Örn Elías Guðmundsson einn af pöbbum hátíðarinnar fór yfir stöðu mála og tíundaði hvernig málum hafi verið háttað hingað til. Mæting var prýðileg og fundargestir í fantastuði, allir sem mættu fengu sleikipinna og skapaðist því afar góð stemning.Jón Þór Þorleifson var kynntur til leiks fyrir bæjarbúum sem nýr rokkstjóri en hann var keyptur frá Sundfélaginu Styrmi á dögunum, þegar leikmannaglugginn opnaði í lok janúar. Jón Þór ræddi um framkvæmd hátíðarinnar í ár og nokkrar nýungar, hann tilkynnti um staðsetningu hátíðarinnar í ár en öðlingarnir í verktakafyrirtækinu KNH hafa lýst yfir vilja til að hýsa hátíðina nú þriðja árið í röð. Lagði Jón Þór til að að öllum starfsmönnum KNH yrði gefið svokallað "high-five" þegar þeim er mætt úti á götu.

Samhugur í stuði

Ljóst er að viðbrögð fólks við hugsanlegum endi á hátíðinni hafi verið gríðarsterk því allir virðast vilja leggja hönd á plóg. Þannig skráðu fundargestir sig í gær á lista hinna staðföstu, þar sem hægt var að skrá sig í ýmis verkefni, s.s. eins og að undirbúa tónleikastaðinn, sjá um að fæða popparana, búa um alla gesti, lesa popparana í svefn, tryggja salernisaðstöðu við tónleikastað og svo mætti lengi telja. Í framhaldi var kynntur tímamótasamningur Ísafjarðarbæjar og Aldrei fór ég suður þar sem megininntakið er það að bæjarfulltrúar lofa að vera í sullandi bullandi stuði og tryggja framtíð hátíðarinnar næstu árin. Mikil gleði ríkti með samninginn en Hálfdán Bjarki Hálfdánsson upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar skrifaði undir samninginn fyrir hönd bæjaryfirvalda og einnig fyrir hönd hátíðarinnar en Hálfdán Bjarki Hálfdánsson sem er fyrrum rokkstjóri átti í mjög hörðum samningaviðræðum við sjálfan sig á síðustu dögum. Hann handsalaði svo samninginn við lófaklapp fundargesta.

Samstarf við Inspired by Iceland

Inspired by Iceland hefur lýst yfir áhuga á samstarfi við Aldrei fór ég suður ogMarkaðsstofu Vestfjarða um að streyma viðburðinum á netinu, fá erlenda fjölmiðlamenn á svæðið og ná þannig athygli heimsins að Ísland, þar sem íslenskir tónlistarmenn og Vestfirðir verða í fókus. Megininntak Inspired by Iceland verkefnissins byggist á því að allir sem hafa taugar til Íslands fái tækifæri til að leggja lóð sitt á vogaskálarnar, bæði Íslendingar og þeir sem hafa heimsótt landið eða dreymir um að sækja það heim. Í því felst meginhugmyndafræði herferðarinnar, að fólk tali beint hvert við annað um hvers vegna það eigi að heimsækja landið. Vestfirðir hafa fengið lofssamlega umfjöllun í Lonely Planet,eru þar taldir einir af 10 áhugaverðustu stöðum að heimsækja árið 2011 og einnig er tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður einn af þremur helstu atburðum sem lesendur eru hvattir til að kynna sér á apríl!

Fyrstu atriði kunngjörð

Það er því ljóst að Aldrei fór ég suður kemur tvíefld til leiks í ár þar sem allir bæjarbúar virðast tilbúnir að leggja sitt að mörkum. Tónlistarmenn virðast á sömu nótum til í að leggja hönd á plóg því umsóknir renna í massavís í herbúðir hátíðarinnar en ljóst er að ekki yrði mikið úr hátíðinni ef ekki væri fyrir velvild tónlistarmanna. Loks var tilkynnt um samstarf Flugfélags Íslands við hátíðina en þeir hafa stutt við hana frá byrjun og gera í ár af enn meiri myndarskap en áður. Kristján Freyr Halldórsson fundarstjóri sagði fundarmönnum að lokum frá því afar fallega lúxusvandamáli að raða í dagskrána og tilkynnti um leið fyrstu tölur frá tónlistarnefndinni. Fyrstu atriðin sem haf a verið bókuð á hátíðina eru m.a. Bjartmar og bergrisarinir, FM Belfast, Skálmöld, Jónas Sigurðsson, Perla Sig, The Vintage Caravan, hljómsveitin Grafík og Páll Óskar Hjálmtýsson. Í lok fundar fór fram stuðmæling í afar flóknum tæknibúnaði en fór ekki betur en svo að travoltamælirinn brann yfir, svo mikið var sullandi bullandi stuðið.