Rúna Esradóttir | miðvikudagur 20. febrúar 2013

Fyrstu atriði hátíðarinnar 2013 tilkynnt!

Rokkhátíðin Aldrei fór ég suður blæs nú í herlúðra og slær til hátíðar í tíunda skipti á Ísafirði um páskana. Engan bilbug er á hátíðarhöldurum að finna og svo virðist sem áhugi fólks á hátíðinni vaxi og dafni og færir það aðstandendum baráttuhug í brjóst. Hátíðin fer fram, eins og síðustu ár í flennistórri skemmu við Grænagarð, föstudaginn 29.mars og laugardaginn 30. mars.

 

Fjölmargir tónlistarmenn hafa stigið á stokk síðustu níu ár, bæði landsþekktir og ungir sem aldnir heimamenn. Upp á samskonar blöndu verður boðið í ár en hátíðarhaldarar hrósa miklu happi að njóta þvílíkrar velvildar frá öllu því tónlistarfólki sem þeir hafa leitað til og sóst hafa eftir því að heimsækja hátíðina.

 

Nú hefur uppstillinganefnd hátíðarinnar í ár lokið sínum starfa og dagskráin tilbúin. Hér fyrir neðan tilkynnist um fyrstu sveitirnar en hér er um að ræða fyrsta þriðjung þeirra listamanna sem taka munu þátt í Aldrei fór ég suður 2013. Frekari fregna er svo að vænta á næstu dögum.

 

 

Borko 

Tónlistarmaðurinn Borko og skósveinar hans áttu eina að plötum ársins á síðasta ári, Born to be free þar sem dansleikur í Félagsheimilinu í Hnífsdal er meðal yrkisefna. Borko á sér hliðarsjálf, kennarann Björn Kristjánsson, sem býr með Birnu konu sinni og Hjalta syni þeirra á Drangsnesi á Ströndum. Borko er góðkuninngi hátíðarinnar, hefur komið nokkrum sinnum áður og nú síðast með hljómsveitinni FM Belfast fyrir tveimur árum. Við bjóðum strákana í Borko velkomna á Aldrei 2013!


Borko - Born to be Free

 

 

 

Duro

Á kontor stjórnarformanns Aldrei fór ég suður tónlistarhátíðarinnar við Ísafjarðarhöfn komu í heimsókn snemma í vor, kokhraustir og vígreifir drengir úr Grunnskólanum á Ísafirði. Ekki höfðu þeir nokkurt erindi hafnsögulegs eðlis né voru þeir að forvitnast um komu skemmtiferðaskipa. Þetta voru strákarnir í Duro sem voru mættir til að tilkynna þátttöku sína á Aldrei fór ég suður, ekki sóttust þeir eftir því heldur boðuðu þeir einfaldlega komu sína. Þegar þeir voru inntir eftir því hvað þeir ætla að spila sögðu þeir eftirfarandi; "…hva, þetta er bara svona alternative rokk. Er það ekki bara nett eða…?" Það er mikill spenningur í herbúðum okkar fyrir Duro.


Futuregrapher 

Öðlingurinn Árni Grétar er frá Tálknafirði en býr í Reykjavík og er einn af helstu sendiherrum danstónlistarsenunnar þar í bæ. Hann er meðal stofnenda plötuútgáfunnar Möller records og undir merkjum Futuregrapher hefur hann slegið í gegn ekki eingöngu fyrir æpandi dansvæna takta, heldur einnig fyrir húrrandi frábæra sviðsframkomu. Futuregrapher mun eflaust trylla lýðinn á hátíðinni í ár. Við hlökkum til.Futuregrapher - Think

 

 

Jónas Sig

Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðson gaf út sína þriðju sólóplötu á síðasta ári, Þar sem himinn ber við haf, og hafa nokkur þeirra laga náð himinháum vinsældum. Og skal engan undra því Jónas er einn af liprustu lagasmiðum okkar tíma og svo er leitun af ljúfari sálum. Okkur er einkar ljúft að taka á móti Jónasi í ár og meðreiðarsveinum hans.


Jónas Sig - Hafið er svart

 

 

Langi Seli

"Viljiði heyra ROKK? Viljið þið heyra BILLÝ? Viljið þið heyra ROKKABILLÝ?" Það eru sannarlega frábær tíðindi að loks skuli töffarinn Langi Seli heiðra Vestfirðinga með nærveru sinni um komandi páska. Leðurjakki, gallabuxur, brilljantín og þeirra kántrýskotna hillbillýpönk mun svo sannarlega eiga uppá pallborðið hjá rokkabillý þyrstum gestum Aldrei fór ég suður og það verður enginn svikinn af skemmtun þeirra félaga; Sela, Jóni Skugga og Erik Quik. Vinsamlegast pússið skóna!Langi Seli

 

 

Oyama

Hljómsveitin Oyama er frekar ný hljómsveit og er af mörgum talin ein af mest spennandi hljómsveitum hér heima í dag. Hún varð til úr nokkrum hljómsveitum, Sudden Weather Change, My Slumbering Napoleon, We painted the walls og Swords of Chaos. Oyama spilar melódískt gítarrokk þar sem raddir söngvarana Júlíu og Úlfs njóta sín til hins ýtrasta. Það er frábært að gestir Aldrei fór eg suður fái að kynnast þessari efnilegu sveit sem þegar er farin að spila á erlendri grundu.


Oyama - Shade

 

 

Prinspóló

Hljómsveitin Prinspóló er byggð í kringum prinsinn sjálfan, Svavar Pétur Eysteinsson. Hann mun ferðast með hirð sína á hátíðina í ár en önnur plata Prinspóló mun mögulega líta dagsins ljós í sumar. Hin konunglega hirð prinsins samanstendur m.a. á Berglindi hljómborðsprinsessu, Benna Hemm Hemm, trommaranum Kristjáni Frey, Loja gítarleikara og Bjössa slagverksleikara. Prinspóló verða í tipptoppstandi og við getum ekki beðið.


Prinspólo - Tipp Topp

 

 

Ylja

Tríóið Ylja hefur vakið mikla athygli upp á síðkastið. Þau gáfu út sína fyrstu plötu á síðasta ári og naut hún mikillar hylli. Tríóið er skipað þeim Guðnýju, Bjartey og Smára "Tarfi". Þau eiga ættir sínar að rekja til Patreksfjarðar, þá sú staðreynd sé ekki í frásögur færandi, þá erum við afar glöð að fá frábæra fulltrúa frá frændum okkar á sunnanverðum kjálkanum. Nú síðast fréttist af þeim á balli á Bessastöðum þar sem íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent, ísfirska rithöfundinum Eiríki Norðdahl. Ylja spila þjóðlagaskotið kassagítarpopp kryddað með blúsuðum kjöltugítar, nú koma þau galvösk í heimsókn á Adrei fór ég suður og bræða vafalaust hörðustu sjómenn í landi.


Ylja - Konan Með Sjalið