Ágúst Atlason | miðvikudagur 30. mars 2011

Góður dagur á Vestfjörðum

Þeir eru það margir, góðu dagarnir fyrir vestan. Á vorin...(já við viljum meina að það sé komið vor) fjölgar þeim hratt og eru í hámarki um páska þegar Aldrei fór ég suður fer fram. En við ætlum ekki að tala um vorið og blómin heldur dag sem Aldrei fór ég suður fólk átti með velunnurum hátíðarinnar og blaðamönnum að sönnan sem vestan. Í dag var semsagt sá dagur sem næst mest er beðið eftir(að sjálfsögðu er föstudagurinn langi sá mest spennandi, þegar hátíð hefst) en þá eru listamennirnir kynntir til leiks. Blaðamannamorgunverðarfundur var haldinn í flugstöðinni á Ísafirði þar sem Gamla bakaríið bauð upp á veitingar. Hér má sjá dagskrá fundarins og hver talaði um hvað:

  • Kristján Freyr fundarstjóri AFS gengisins setur fundinn.
  • Um Aldrei fór ég suður talar Jón Þór rokkstjóri.
  • Um útsendingu frá hátíðinni og aðkoma InspiredByIceland að verkefninu talar Hera Brá Gunnarsdóttir - Íslandsstofa.
  • Umfjöllun um íslenska tónlist erlendis, Kamilla Ingibergsdóttir segir frá - Úttónn.
  • Kraumur - íslenskur tónlistarsjóður - gagnrýnin umræða um íslenska tónlist. Kristján Freyr Halldórsson - áhugamaður um íslenska tónlist kemur aftur við sögu.
  • Aðkoma Ísafjarðarbæjar að hátíðinni, Daníel Jakobsson bæjarstjóri Ísafjarðar sagði frá henni.
  • Hljómsveitir sem koma fram. Rokkstjóri tilkynnir endanlega listann.
  • Samstarfssamningur undirritaður.

Eins og undanfarin ár þá er enginn aðgangseyrir að hátíðinni og því um einstakan viðburð að ræða. Allt tónlistarfólkið sem kemur fram gefur vinnu sína og gerir það okkur kleyft að sleppa því að rukka aðgangseyri. Dyggileg aðkoma fyrirtækja hefur tryggt hátíðinni fjármagn til þess að halda hátíðina. Að öllum öðrum bakhjörlum hátíðarinnar í gegnum árin, ólöstuðum, þá hefur það verið til fyrirmyndar hve Flugfélag Íslands hefur verið tryggur bakhjarl og aldrei skorast undan bón Aldrei fór ég suður nefndarinnar um dyggilegan stuðning ár hvert. Eins og staðan er núna 3 vikum fyrir hátíð þá er Flugfélag Íslands eina fyrirtækið sem hefur staðfest þátttöku sína sem dyggur bakhjarl og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir.

 

Ísafjarðarbær heitir því að leggja fram mikid og öflugt verklegt framlag bæjarfulltrúa og dyggan stuðning með notkun á tólum og tækjum bæjarins. Síðast en ekki síst að setja gott fordæmi og um leið virkja bæjarbúa til góðverka og hressleika og gleði og stuði og svo framvegis!

 

Því næst var haldið í KNH höllina en þar hefur Aldrei fór ég suður verið haldin þrisvar og má segja að sá stuðningur sem KNH er að veita hátíðinni sé algerlega ómetanlegur því án húss væri engin hátíð, þetta er næstum því jafn mikilvægt og tónlistamennirnir! KNH er verktakafyrirtæki á Ísafirði og er þessi skemma(höll) bílaverkstæði þeirra sem tekur á sig mynd tónleikasvæðis um páska. Þarna var höllin kynnt og Mugison tók lagið, Gúanóstelpan mín.

 

Hérna má sjá flott vídeó frá þessum tveim atburðum sem Listavélin í Listakaupstað bjó til en Fjölnir Baldursson er aðal úðabrúsi þess batterís.

 

Aldrei fór ég suður from Fjolnir Baldursson on Vimeo.

 

Nú var arkað í Safnahús Ísfirðinga, Gamla sjúkrahúsið og þar tók bókasafnsstjórinn Jóna Símonía Bjarnadóttir á móti hópnum og fór með þeim um húsakynni safnsins af miklum myndarskap, en safnið er í einu fallegasta húsinu á eyrinni. Mysterious Marta spilaði svo fyrir hópinn eitt hressandi lag.

 

Þegar ísfirðingar verða svo svangir, liggur leiðin oft á sama stað, en það er í Hamraborg þeirra bræðra Gísla&Úlfs, en þeir eru þekktir sem einhverjir brosmildustu bræður sem sögur fara af og einnig eru þeir dyggir stuðningsmenn menningarlífs bæjarins. Hamraborg er svona í miðjunni á bænum og þú hittir alla þar. Vakti vöruúrvalið mikla athygli hjá hópnum og fannst fólki magnað að geta keypt sér trommukjuða og bland í poka í sömu ferðinni. Því næst buðu þau í Hamraborginni hópnum í mega fína hammara og kókosís í eftirrétt og allir urðu saddir.

 

Hann Siggi Hjartar í Bolungarvík, sem rekur fyrirtækið Bjarnanes og sérhæfir sig í siglingum um Jökulfirði og Hornstrandir, bauð svo öllum hópnum í siglingu á Hesteyri(TAKK SIGGI!) en það eru fornar söguslóðir og gerist nýjasta bókin hennar Yrsu einmitt þar. Ekki fékkst það staðfest hvort hópurinn sá drauga eða kynjaverur, sennilega er það önnur saga. Albertína bæjarfulltrúi tók svo að sér fararstjórn með hópinn og sýndi þeim svæðið og fyrir ferðina voru þau nestuð með stæl og var það hún Nanný Arna sem að útbjó nestið þeirra og kunna þau henni miklar þakkir fyrir. Vestfirðir svíkja seint og var þetta stórkostleg ferð í alla staði.

Látum hérna Facebook status dagsins frá Daníel Jakobssyni bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar negla loka naglann í þessa málsgrein:

Á eftir að lifa lengi á Hesteyrarferð dagsins (takk Aldrei fór ég suður)

 

Í lok dagsins var kíkt um borð í skútuna Auroru til Rúnars Óla og Búbba og fengu þau þar kaffi og meðan þau sötruðu á kaffinu kom Halldór Sveinbjörns og sýndi þeim grænlenskan kajak sinn og tók nokkrar hressandi veltur.

 

Hér koma svo lokaorð frá Jóni Þóri "Smala" Rokkstjóra:

Dagurinn var algerlega frábær og snéri alsáttur hópur heim eftir skemmtilegan dag og viljum við þakka þeim sem tóku svona höfðinglega á móti okkur kærlega fyrir okkur!