Rúna Esradóttir | miðvikudagur 20. mars 2013

Hér leggur skip að landi

Já höldum tónlistarhátíð og höfum hana á 16 milljón ára gömlu bergi á breiddargráðunni 66,0755 og til að tryggja að það verði sem huggulegast að kúra saman inn í skemmu skulum við halda hana um páskana! Vetur konungur hlær en það vill svo til að við hlæjum til baka. Við höfum allt til alls til að takast á við þig kallinn minn!

Hér fyrir vestan eru veðurskilyrði breytileg og fengum við aðeins að komast að því í dag.

Stæðilegt flutningaskip Samskipa lagði að Ísafjarðarhöfn í morgun, skipið ber heitið Pioneer Bay.  Það fyrsta sem mér dettur í hug eru gömlu hljómflutningsgræjurnar hans pabba sem hétu einnig Pioneer. Á það nafn mjög vel við í dag því um borð er gámur sem inniheldur hljóðkerfi sem við leigðum fyrir Aldrei fór ég suður.  Enska orðið pioneer þýðir brautryðjandi og gaman að segja frá því að þessi ferð er sú fyrsta á nýrri siglingaleið.  Samskip hafa hjálpað okkur í gegnum árin við flutninga á tækjum og nú gefst okkur tækifæri til þess að nýta okkur strandsiglingarnar. Gott mál.

 

Skipið átti að baki 28 átta tíma siglingu, sem átti einungis að taka 12 tíma.  Það var barningur að komast vestur í NA 20 metrum á sekúndu og mjög svo þreytt áhöfn sem steig í land að sögn Kristínar Hálfdánar.

Gámurinn var lestaður hjá Exton, en í hann fór glásinn öll af tækjum, tólum, drapperingum, ljósum og gvuð má vita hvað.  Við viljum tryggja fullkomin hljóm fyrir tónleikagesti og eru Exton menn alveg með okkur í liði með það. Auk þess sem okkar maður hér fyrir vestan Venni í Stuð ehf. leggur tæki og hönd á plóg. 

Kunnum við þessu eðalfólki sem hefur hjálpað okkur að massa þennan áfanga bestur þakkir, ROKK vinir!