| föstudagur 29. mars 2013

Hljómsveitirnar, framhald á kynningu

Ojba Rasta

Ojba Rasta er stór og fallegur vinahópur sem gerði eina frumlegustu plötu á síðasta ári.

Tónlistin er samin undir áhrifum Jamaicaættuðu reggí og dubtónlistar, einnig sækir hljómsveitin innblástur sinn í þjóðlagastíl eins og heyra má í hittaranum Baldursbrá.  Það verður upplifun að vagga sér við hlýlegt reggíið og faðma næsta mann.

 

 Samaris

Sigursveit músiktilrauna 2011 samanstendur af Áslaugu Rún Magnúsdóttur, Jófríði Ákadóttur og Þórði Kára Steinþórssyni. Samaris er ein flottasta downtempo/triphop sveit Íslands. Draumfenginn söngur Jófríðar og svífandi hljómar Þórðar og Áslaugar mun ekki svíkja neinn.


 

 

Valdimar

Tónlist Valdimars spannar vítt svið, allt frá hugljúfum ballöðum til orkumikilla og tilfinningaríkra tóna.  Blíð og tær rödd Valdimars Guðmundssonar fyllir loftið studd velþéttri og velskipaðri hljómsveit. Valdimar gaf út plötuna Undraland 2010 og svo kom Um stund sem var valin besta platan á Rás 2 árið 2012.

 

 

Ragga Gísla og Fjallabræður

Hinir stórfenglegu Fjallabræður slást í hóp með Röggu Gísla og ætla að fletta þakið ofan af Aldrei skemmunni okkar með einlægum kórsöng, sláandi kröftugum hljóðfæraleik og husky rödd Röggu.  Þau hafa í sameiningu samið lag tileinkað Aldrei fór ég suður í ár,  Þetta er ást!  Gæti ekki lýst hátíðinni betur.  Hlýðum á kyngimagnaða tóna undir styrkri stjórn Halldórs Gunnars Pálssonar.Sin Fang

Hér ríður á vaðið einn af riddurum indí-popp senunnar.  Draumkennt þjóðlagapoppið rennur úr ranni Sindra Más Sigfússonar eða Sin Fang. Sin Fang ber með sér ljúfan blæ tóna hleypir inn birtu í hugann. Það verður upplifun að fljóta með inn í heim Sin Fang og verða fyrir áhrifum.

 

 

Hörmung

Hörmung skipa þeir Brynjar J. Olsen, Einar Bragi Guðmundsson, Egill Bjarni Helgason, Slavyav Yordanov og Valgeir Skorri Vernharðsson eru ungt band sem er að stíga sín fyrstu skref í þessari mynd.  Kröftugt rokk og fljótandi gítarleikur, hér er sköpunargleðinni gefin laus taumurinn. Stórefnilegir vestfirskir drengir.

 

 

Stafrænn Hákon

Prímusmótor Stafræns Hákons mun vera sá ágæti maður Ólafur Josephsson.  Hér dugar ekkert annað en að vitna beint í wikipedia: "Ólafur hefur frá árinu 1999 verið að bralla við heimatilbúnar upptökur. Snemma árs 2001 sauð Ólafur saman litla heimatilbúna plötu sem fékk nafnið „eignast jeppa“ og fór hún í sölu í hinni sálugu plötubúð Hljómalind. Ólafur hafði fljótt samband við góðvin sinn Samúel White sem áður hafði verið meðlimur ásamt Ólafi í bílskúrsbandinu Sullaveiki Bandormurinn og fékk hann með sér í lið til að leggja hönd á plóg. Úr varð samstarf sem enn lifir í dag".

Stafrænn Hákon flytur sveimkennt Lo-Fi elektrónískt síðrokk...vá þvílíkur tungubrjótur!

Næsta plata heitir víst "Sippað í svartholið" honum finnst nefnilega vanta meiri húmor í íslenska tónlist.

Endilega kynnið ykkur þennan stórkostlega tónlistarmann á wikipedia

 Skúli Mennski

Framsækinn og metnaðarfullur texta og lagahöfundur og flytjandi sem býður uppá sérsniðnar tónlistarlausnir fyrir einstaklinga, hópa, minni og stærri fyrirtæki og félagasamtök. Skúli mennski er einkarekinn í almannaþágu. Kjörorð hans eru frelsi, virðing og góð skemmtun.

 

Sniglabandið

Sniglabandið var upphaflega nátengt Bifhjólasamtökum lýðveldisins, Sniglum. Þeir eru ótrúlega hugmyndaríkir, skemmtilegir, hressir og snarruglaðir. Ein af elstu og virtustu hljómsveitum landsins. Sniglabandið er einnig að spila á Edinborg eftir skemmutónleikana bæði laugardag og sunnudag til 4 um nóttina. Verði stuð!
Rythmatik

Ung og framsækin rokkhljómsveit. Valgeir Skorri Vernharðsson, Hrafnkell Hugi Vernharðsson, Þormóður Eiríksson, Björgúlfur Egill Pálsson. Hér er gaman að segja frá því að í hljómsveitinni eru synir Venna hljóðmanns og uber bassa/gítarleikara og Palla Einars hljóðmanns og uber bassaleikara.  Þeir ætla að flytja sitt dreymandi sveimrokk.