Rúna Esradóttir | þriðjudagur 5. mars 2013

Hugað að páskaferðalagi

Nú fer hugurinn á ferð.  Það er kominn mars og tíminn þeysist áfram, rokkhátíð alþýðunnar er handan við hornið.

Á að taka flugið? Á að keyra? Jafnvel sameinast í bíla og brenna vestur? Taka ótrúlegu AFÉStilboði Avis? Enn er laust í sum gistirými hér fyrir vestan, upplýsingar er að finna undir þjónusta/gisting/veitingar á síðunni hjá okkur.

Hvernig sem verður þá er lag að byrja að dagdreyma. Það styttist í að allur hljómsveitalistinn birtist, þá er um að gera að kynna sér herlegheitin.  Sum atriði hátíðarinnar eru þannig sniðinn að ekki er annað hægt en að opna augun og hjartað, verða fyrir ákveðinni upplifun þegar allt á sér stað. Einar mínar bestu upplifanir undanfarnar hátíðir voru Hjálmar, Biogen, Valdimar, Vintage Caravan, "Mér finnst rigningin góð" manstu? Þá var sko ruggað í takt og hoppað - kannski ekki svo mikið í takt. 

Nú skal gíra sig í gang með tilhlökkun í hjarta.

Ég spurði nokkra hressa í hljómsveitum hátíðarinnar í ár:

 

Hvernig gírar þú þig upp fyrir AFÉS?

 

Prins Póló:  Er ekki Pétur Magg á svæðinu? Þá vippa ég Svala-bolnum upp úr óhreinatauskörfunni og er þar með kominn í gírinn!

 

Jónas Sig:  Ég gíra mig upp með engiferi. Mikið af Engiferi. Svo tölum við í bandinu endalaust um það hvað okkur hlakki mikið til að fara vestur og spila þannig að við verðum öll orðin tryllt af eftirvæntingu. Í þetta sinn er ég svo líka í samskiptum við Lúðrasveit Ísafjarðar sem verður rúsínan í pylsuendanum og ég get ekki beðið eftir að heyra hvernig það kemur út.

 

Borko: Ég gef Papamug fimmu og fæ mér svo plokkara á Tjöruhúsinu.