Snorri Örn Rafnsson | fimmtudagur 2. apríl 2015

Hvað skal gjöra í dag?

Þó svo að Afés hátíðin hefjist ekki strangt til tekið fyrr en á morgun, þá er engin skortur á tónlist og skemmtun í dag og kvöld.

Skíðavikan er á fullu í allan dag og dagskráin er þétt setin og full af viðburðum sem vert er að kíkja á. Nú eða bara fara út í dal og njóta veðursins.

Ef að hungrið sverfur að þá er engin skortur á gæða veitingastöðum í bænum til að prufa.
Til dæmis er Hótel Ísafjörður alltaf með flottann matseðil sem vert er að glugga í. Subway er tilvalið ef fólk er í samlokustuði, og svo er alltaf eithvað gott og lífrænt á boðstólum í Bræðraborg.
Þessir staðir, og allir hinir eru með opið alla páskana, en nánar um opnunartíma verslana og veitingastaða og sundlauga og bakaría og ég veit ekki hvað og hvað er að finna hér.

Eftir matinn, þegar allir eru saddir og sælir þá er alveg tilvalið að gera sér ferð í Verbúðina, sem er staðsett á Aðalstræti 24, og versla sér ótrúlega flotta Afés boli, hettupeysur, gítarneglur, barmmerki og fleira frábært dót, og þar með styrkja hátíðina og tryggja að við getum haldið áfram um komandi tíð að bjóða upp á fríkeypis tónlistarveislu á páskunum. 
Einnig er verbúðin með fínt úrval af fatnaði og flottri íslenskri hönnun og eru með opið frá 13:00 alla páskana.

Svo verður kvöldið smekkfullt af flottri tónlist út um allan bæ.
Hótelið verður með tónlistarveislu, Krúsin með Afés upphitun, Bræðraborg með skíðakvöld og Húsið með lifandi tónlist.
Allir ættu að finna sér stuð við sitt hæfi, en nánari dagskrá er hægt að nálgast hérna.

 

Og ef fólki vantar eithvað að gera akkúrat núna, en nennir engan veginn strax út eða frá tölvunni, þá er hægt að kíkja á stemmninguna og stuðið sem var í fyrra á Afés 2014.