| mánudagur 26. mars 2012

Hvar ætlar þú að gista á páskahelginni?

Nú fer hver að verða síðastur að finna sér gistingu yfir Rokkpáskatryllinginn sem hefst eftir aðeins 11 daga. Lítill rokkfugl hvíslaði að nefndarmeðlimum að gisting væri öll að verða uppbókuð á svæðinu og því um að gera að hafa hraðar hendur. Hægt er að sjá hér hvar gistiheimili og hótel eru. En samkvæmt okkar upplýsingum eru eftirfarandi enn með laus herbergi:

 

Ísafjörður:

Miðpunktur Aldrei fór ég suður hátíðarinnar.

 

Fyrir þá sem vilja taka páskahelgina með stæl og hyggilegheitum, þá eru enn laus herbergi á Hótel Ísafirði sem eru þó seld í 3gja daga pakka með morgunverði. Heyrst hefur að aðrir staðir séu uppbókaðir en þó vert að athuga t.d. Gamla Gistiheimilið og Gistingu Áslaugar(Sjá á Google maps) því fólk getur jú hætt við á síðustu stundu. 

 

Suðureyri:

15-20 mínútna akstur frá Ísafirði. Margrómaður staður fyrir nálægð við náttúruna og góðan hamborgara á sjoppunni.

 

Gistiheimilið 66 á enn nokkur herbergi laus samkvæmt heimildum AFÉS. Mikilvægt er að segja frá því að á Suðureyri er besta sundlaugin(mögulega hlutlægt mat undirritaðrar) í Ísafjarðarbæ og því hentugt að vakna þar og kíkja í sund áður en rokkið tekur við.

 

Einnig er Hvíldarklettur með einhverjar íbúðir lausar, á þau næst í síma 456-6667. 

 

Flateyri:

Ekki náðist á neina hvíslandi fugla á Flateyri í þessari upplýsingaöflun. En þess má geta að kórinn Fjallabræður á upphaf sitt að þakka Flateyri. 

 

Uppfært: Hvíldarklettur á einhverjar íbúðir sem enn eru lausar, sími 456-6667. 

 

Önundarfjörður:

Í Önundarfirði er enn laus gisting á Kirkjubóli í Korpudal, sem er um 20 mínútna akstri frá Ísafirði. Hér er notalegt að vera og nálægð við náttúruna gerir gott fyrir þreytta rokkhátíðlinga. 

 

Bolungarvík:

15 mínútna akstur frá Ísafirði í gegnum öruggustu göng á landinu þar sem Óshlíðinni hefur verið lokað.

 

Í Bolungarvík er laus gisting hjá skvísunum í Systrablokkinni og ekki er nú slæmt að gista í Bolungarvík þar sem Grafík heldur uppi stuðinu á alvöru vestfirsku sveitaballi þar á páskadag.

Sömuleiðis eru þónokkur laus herbergi í Einarshúsi sem er í nokkurra tuga metra fjarlægð frá Félagsheimilinu í Bolungarvík þar ballið með Grafík er einmitt haldið.

 

Þingeyri:

40 mínútna akstur frá Ísafirði, snilldarsundlaug og eins og allir sem vel eru lesnir í íslenskum fornbókmenntum er fræga setningin ,,Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar” sögð um þennan fallega fjörð sem Þingeyri stendur við.

Gistiheimilið Fjarðargötu 10 á enn nokkur herbergi laus. Einnig eru herbergi laus á Gistihúsinu Við Fjörðinn Þingeyri herbergi með aðgengi að eldhúsi, tékkið á Við fjörðinn. Og svo má líka athuga með Hótel Sandafell en þar eru laus herbergi líka.

 

Dýrafjörður:

Hótel Núpur í Dýrafirði er einnig með laust í gistingu og bjóða þeir upp á Aldrei fór ég suður tilboð á vef sínum, þeir bjóða einnig upp á sætaferðir fram og til baka á meðan hátíð stendur, tékkið á því!

 

BB fjallar einnig um málið, kíkið á þeirra frétt hérna.

 

Svo fyrir ykkur sem enn eigið eftir að finna hvar þið ætlið að hvíla höfuðið að degi loknum yfir hátíðina er um að gera að fara að hringja símtöl. Nema jú þið þekkið einhverja góðviljaða heimamenn sem geta fyllt húsið af dýnum.