Ágúst Atlason | mánudagur 11. apríl 2011

Inspired by Iceland og Aldrei fór ég suður

Inspired by Iceland mun koma sérstaklega að hátíðinni í ár með miklu kynningarátaki, bæði fyrir hátíð og eftir og einnig meðan á hátíð stendur. Nú eru að hefjast sýningar á vídeóum sem voru tekin fyrir fyrir vestan sem fjalla um svæðið og menninguna en hátíðin höfð í bakgrunni. Vídeóin verða sýnd á vefsíðu Inspired by Iceland. Þetta verður flott kynning um svæðið en Vestfirðir hafa verið mikið í sviðsljósinu undanfarið, enda um að ræða eitt stórbrotnasta svæði landsins og sýnist á öllu að Vestfirðirnir verði ferðamannastaðurinn í ár.

 

Inspired by Iceland mun svo varpa úr á netið beinni útsendingu frá hátíðinni og er stefnt á að gera hana sem best úr garði gerða, hér er smá tilvitnun í Jón Þór Rokkstjóra, fengin að láni á bb.is:

 

„Útsendingin verður geðveik. Það verður sérstakt tökulið með upptökustjóra sem sér um útsendinguna og hljóðið verður unnið í útsendingarbíl Rásar 2, sem einnig verður á svæðinu. Þetta verður meira í ætt við sjónvarpsútsendingu en netútsendingu og verður gaman að fylgjast með þessu“

 

Samvinna er á milli Inspired by Iceland og Snerpu og mun Snerpa styrkja Aldrei fór ég suður um öfluga Internet tengingu til að streyma tónleikunum á netið fyrir þá að njóta sem eiga ekki heimangengt á hátíðina. Snerpa gaf einnig Internet tengingu í fyrra ásamt straumi út á netið í samvinnu við hátíðina.

 

Inspired by Iceland hefur svo gefið út svokölluð e-cards eða net póstkort til að fylgja átakinu eftir. Endilega skoðið og nýtið til að senda vinum og ættingjum út í heimi svo þeir geti fylgst með eða já, jafnvel bara komið vestur, en þar verður stuðið um páskana, þetta er ekkert flókið!