Rúna Esradóttir | miðvikudagur 27. mars 2013

Kraumur og Aldrei fór ég suður

Kristján Freyr Halldórsson blaðamaður Aldrei.is með miklu meiru fjallar hér um samstarf Kraums og Aldrei fór ég suður.

 

Síðustu 5-6 árin hefur Aldrei fór ég suður notið samvinnu Kraums tónlistarsjóðs við hátíðina og í sameiningu hafa þau haldið stórmerkilega fundi í Bryggjusal Edinborgarhússins. Þessir fundir hafa iðulega gengið undir ýmsum nöfnum, fráhrindandi nöfnum eins og "ráðstefna", "málþing", "pallborðsumræða" og þaðan af verra. Markmið fundanna er þó að skapa samtal meðal þeirra sem starfa innan tónlistargeirans og/eða hafa áhuga á íslenskri tónlist.

Við hittum Jóhann Ágúst Jóhannsson framkvæmdastjóra Kraums - tónlistarsjóðs um þessa fundi og um hvað þeir snerust:


# Hvað er það fyrsta sem kemur upp í kollinn þegar minnst er á Aldrei fór ég
suður?

Ísafjörður. Vinátta, gleði og ósérhlífni.

# Þú hefur sótt tónlistarhátíðir hérlendis og um víða veröld, er eitthvað
sem gerir AFÉS sérstaka að einhverju leyti?

Það er margt sem gerir AFÉS alveg einstaka hátíð og örðuvísi. Það er til
dæmis hvernig allir bæjarbúar eru virkir þátttakendur í svo mörgu sem snýr
að hátíðinni, þessi mikla samstaða og hjálpsemi, þetta er alveg einstakt.
Ísafjörður er rokk(stór)borg hverja einustu páskahelgi þar sem allir
leggjast á eitt við að skemmta sér og öðrum með gleðina að vopni. Það að
þetta er heldur ekki gert í ágóðaskyni er einstakt, að hljómsveitir keppist
um að fá að spila á hátíðinni án þess að þiggja greiðslu fyrir segir sitt.
Hvergi í heiminum verður maður vitni af annarri eins samheldni og á Ísafirði
og það sem er kannski hvað sérstakast en skýrir svo margt er að maður finnur
hvergi orðin "ekki hægt" í orðabók skipuleggjenda.

# Þú kemur komið 3-4 sinnum á hátíðina og verður með okkur núna í ár, hvað
er eftirminnilegast úr þínum AFÉS heimsóknum?

Hangikjötið hjá nafna mínum, pabba Jóa (7oi) og Valda úr Reykjavík!, það er
bara eitthvað það besta í heimi. Nóttin sem ég komst í afganga inn í eldhúsi
með móður þeirra bræðra fyrsta sinn sem ég kom á Aldrei rennur mér seint úr
minni. Þetta var annað sinn sem hátíðin var haldin og þá fékk ég einnig
hlutverk og ætlaði að gerast smali og fara í göngur en hef því miður ekki
ennþá látíð verða af því. Svo verð ég að minnast á rútuferð frá Þingeyri
2012, hún var eitthvað það rosalegasta ever.

# Nú ert þú í forsvari fyrir Kraum-tónlistarsjóð sem stutt hefur dyggilega
við hátíðina okkar, getur þú sagt okkur í fáeinum setningum fyrir hvað
sjóðurinn stendur?

Kraumur hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og
fremst með stuðningi við unga listamenn þó vissulega sé það ekki alltaf svo
því að sjálfsögðu er það einnig mjög mikilvægt að vera að gera góða og
athyglisverða hluti. Það er okkar markmið að  auðvelda þeim sem við styrkjum
að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem
utan. Kraumur vill auka frumkvæði, ýta undir nýsköpun og metnað á
tónlistarsviðinu en þessi skilgreining á t.d. fullkomlega við Aldrei fór ég
suður.

# Samstarf Kraums og AFÉS hefur endurspeglast í umræðufundum í
Edinborgarhúsinu þar sem rætt hefur verið um ýmis mál innan
tónlistarbransans. Hvað er rætt þarna og fyrir hverja eru fundirnir?

Á hátíðinni standa AFÉS og  Kraumur fyrir poppfræðslurokkgreiningu í fimmta
sinn og í þessari hressu rokkmálstofunni er reynt að greina ýmis mál sem
tengjast tónlistargeiranum og síbreytilegu umhverfi, slegið er á létta
strengi en alvaran er aldrei langt undan. Fundirnir eru tvímælalaust fyrir
allt tónlistarfólk og alla þá sem láta sér mál tónlistargeirans sig varða.
Það eru allir velkomnir og þetta eru skemmtilegar umræður og oft á tíðum
eldheitar. Ýmis mál hafa verið rædd þarna eins og m.a. # Tónlistarhátíðir út
á landi # Jakob Frímann á mannamáli - eða samtök og aðildarfélag sem
tónlistarmenn eru í eða geta sótt um aðild að # Ég stend á Skýi / Allir eru
í fínu formi  - Er stafræn útgáfa að verða viðurkennd útgáfa? # HVAR ERU
PENINGARNIR MÍNIR? - stéttarfélög tónlistarfólks og greiðslur vegna notkunar
á tónlist. Og fleira og fleira ....


# Teluru að þessir fundir séu mikilvægir og skila einhverju?

Já ég trúi því sannarlega að svo sé. Samtal fagaðila og áhugafólks á vel
skilgreindu umræðuefni með góðum fundarstjóra auka víðsýni og þekkingu.
Þessir fundir opna nýjar dyr og veita innsýn í þankagang þeirra sem taka
þátt í umæðunni og hafa þekkingu á þeim málefnum sem verið er að ræða. Á
rökstólum situr alltaf reynslu mikið fólk úr geiranum en einnig þeir sem eru
nýir og að stíga sín fyrstu skref, upplifun þeirra er t.d. allt öðruvísi á
þeim stofnunum og fagaðilum sem eru að sinna málum tónlistarfólks. Þegar
margir leggja orð í belg verður til sameiginleg þekking og reynsla sem er
ómetanleg. Ungur nemur gamall temur á vel við þegar flókin mál eins og
félagasamtök tónlistargeirans eru greind, útskýrð og mikilvægi þeirra eða
sérstaða rædd. Á þessum fundum hafa orðið til tengingar sem ekki voru til
áður, tónlistarfólk kynnist og opnar sig í umræðu á vettvangi sem er þeirra
eigin og á þeirra forsendum.  Poppfræðslurokkgreining AFÉS og Kraums á að
vera fræðandi en aldrei leiðinleg enda er líka aldrei leiðinlegt á Aldrei.

Að lokum vil ég bara segja að ég vona að sjá sem flesta í Edinborgarhúsinu á
föstudaginn langa, allir eru velkomnir og er aðgangur ókeypis en umræðurnar
eru ávallt fjölbreyttar og oftar en ekki árangursríkar. Við þetta má bæta að
fundarstjórn og umræðuefni eru ávallt skemmtileg og svo er geðveikt góð
hressing að fundi loknum!