Kristján Freyr Halldórsson | miðvikudagur 7. mars 2018

LISTI HINNA FRÁBÆRU

Þá er dagskrá tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður 2018 orðin klár og þvílík hátíð! Þetta er í 15. sinn sem boðið er uppá vel blandaða tónlistarveislu með gæðahráefnum úr ýmsum áttum og það í tvo daga yfir páskahátíðina. Ísafjörður og nágrenni hefur rækilega komið sér á kortið sem páskaáfangastaður landsmanna og oft á tíðum einnig erlendra gesta. Í byrjun febrúar voru fyrstu 10 atriðin kynnt og þar voru engir aukvisar á ferð. Það var því morgunljóst að tónninn var gefinn allhressilega fyrir stórkostlega tónleikaveislu enn eitt árið á Ísafirði um páskana. 

 

Þau atriði sem bætast við listann eru; norðlensku sómadrengirnir í hljómsveitinni 200.000 naglbítar, berlínski raftónlistarmaðurinn Kuldaboli, hin stórkostlega folk- og bluegrass tónlistarkona Michelle Nielson, hinir frábæru Birnir & Joey Christ koma ferskir úr hip-hop senunni í 101 Rvk. og loks hafnfirski gleðigjafinn Friðrik Dór.

 

Þetta er stórkostleg viðbót við þéttan lista tónlistaratriða sem birtist fyrr á árinu. Við skulum rifja hann upp: Á móti sól, Kolrassa Krókríðandi, Hatari, Cyber, Une Misére, sigurvegarar Músiktilrauna sem krýndir verða helgina fyrir páska, Dimma, Auður, Between Mountains og … Jói og Króli. Það er þó því miður sem við verðum að tilkynna fjarvistir þeirra síðarnefndu, Jóa Pjé og Króla. Þeir tveir þekkja mögulega orðið „fjarvist” en þeir hafa sökum vinsælda mögulega mætt seint eða ekki í skólann síðustu misseri. Þeir komast því miður ekki til okkar í ár og eru ansi leiðir yfir því. Við berum virðingu fyrir þeim og þeirra ákvörðun, hlökkum til að sjá þá síðar og sendum okkar bestu kveðjur.

 

Fyrir utan veisluna í Kampa-skemmunni þá verður nær endalaust stuð í öðru hverju húsi. Við höfum heyrt að vinur okkar Emmsjé Gauti verði á svæðinu, einnig hljómsveitin Babies og líka Skítamórall, krakkar mínir. Sömuleiðis verður Hreimur á svæðinu og okkar eigin páskaungi Páll Óskar Hjálmtýsson. Svo eiga vinir okkar hjá 66°Norður eftir að tilkynna sína dagskrá á Suðureyri á laugardeginum. Mér sýnist bara allir ætla að vera á Ísafirði um páskana.

 

Við hreinlega getum ekki beeeeðið eftir að sjá ykkur í stuðinu fyrir vestan um páskana - 

á Aldrei fór ég suður 2018.