| þriðjudagur 27. mars 2012

Leyndir hæfileikar Retro Stefson

Retro Stefson er eitt af böndunum sem spilar á hátíðinni í ár en þau hafa ekki spilað á hátíðinni frá því fyrir 4 árum.  Blaðakona Aldrei fór ég suður með aðsetur í  Reykjavík hitti á RetroStefson sem héldu uppi trylltu fjöri á Háskólatorgi, í tilefni alþjóðlegs baráttudags gegn kynþáttafordómum sem Jafnréttisnefnd Stúdentaráð stóð fyrir. Með hjálp nokkurra meðlima úr Miri sem rokkuðu fyrir lesendur í fyrra, samdi blaðakona nokkrar hnyttnar spurningar sem dundu á Unnsteini Stefánssyni.

 

Hvaðan eruði að koma og hvert eruði að fara? Við erum nýkomin af South by Southwest-tónlistarhátíðinni sem er ein stærsta bransahátíðin í Bandaríkjunum. En þangað mæta um tvö þúsund hljómsveitir og allt aðalliðið úr bransanum til að spotta út nýja tónlistarmenn.

 

Hvað er leiðinlegsta spurning sem þið fáið frá blaðamönnum? Spurningar eins og ,,Afhverju Retro Stefson?” og það að vera beðinn um að lýsa tónlistarstíl bandsins.

 

Hvað er framundan? Ný plata, fullt af tónleikum og tónleikaferðalögum erlendis í sumar.

 

Nú bjugguð þið í Berlín stóran hluta síðasta árs, eruði á leiðinni þangað aftur? Við förum eitthvað í sumar aftur og verðum með aðsetur á hóteli í Berlín en ég hugsa að mörg okkar vilji vera dugleg að koma heim.

 

Er ný plata á leiðinni? Og ef svo, hvernig verður hún frábrugðin síðustu plötum? Já, það er ný plata á leiðinni og hún verður aðeins meira svona R&B og á henni verður meira gert uppúr hljóðmyndinni og nýjum hljóðfærum og allskonar skemmtilegum hlutum.

 

Á hljómsveitin einhverja leynda hæfileika? Þegar við vorum í Bandaríkjunum mættum við á rosa mikið af rapptónleikum og það leynda er að við ætlum okkur að verða rapphljómsveit líka. (sem verður ekki leynilegt lengur fyrst það er komið inná aldrei.is mest lesna fréttamiðil landsins um þessar mundir…)

 

Tofu eða kjöt? TÚNFISKUR

 

Ef þú værir grænmeti, hvaða grænmeti værirðu? Eftir langa íhugun… Sæt kartafla

 

Uppáhalds Ísfirðingur: Klárlega Daði Már Guðmundarson

 

Hvernig náið þið upp stemmingunni í hópnum og hvað skiptir máli fyrir stemmingu á tónleikum? Oftast tökum við svona hring til að peppa okkur upp saman fyrir tónleika. Annars skiptir bara mestu máli að skemmta sér vel sjálfur en svo kemst maður að því að maður skemmtir sér best þegar gestirnir skemmta sér vel! Og það er mikilvægt að vera ekki reiður við fólk sem er ekki standandi upp og hoppandi með, því ég væri klárlega ekki hoppandi sjálfur ef ég væri á tónleikum.

 

Góð Aldrei fór ég suður saga? Við spiluðum síðast fyrir 4 árum og höfum ekkert verið beðin um að spila síðan svo ég held að það sé bara mín eina saga fram yfir hátíð.