Andri Pétur Þrastarson | föstudagur 6. apríl 2012

Listamenn og lífskúnstnerar. Níu bráðmyndalegir.

Hótel Rotterdam

Hótel Rotterdam er heimasveit í hæsta gæðaflokki.  Skipuð forkunnarfögrum súgfirskum, bolvískum og ísfirskum drengjum.  Þeir rokka án þess að hafa áhyggjur, og skín spilagleðin ávallt frá þeim.   Þeir hafa farið í gengum mannabreytingar að undanförnu, fengið í lið með sér söngvara og nýjan gítarleikara, og er ekki von á öðru en þetta ferska blóð lyfti Hótel Rotterdam í nýjar hæðir.  Ef þetta væri hótel gagnrýni  þá fengu þeir hiklaust fimm stjörnur.

 

 

Þórunn Antonía

Leikkonan og söngfuglinn Þórunn Antonía er ferskasti ávöxturinn á dívutré íslenskrar tónlistar, og því ekki annað inn í myndinni að fá þennan látúnsbarka á Aldrei fór suður!  Hún vinnur nú að fyrstu plötu sinni í samstarfi við ekki minni menn en Berndsen og Hermigervill og má eflaust eiga von á dansvænu poppi og allskonar gúrme gúmmelaði úr herbúðum Þórunnar á næstunni. 

 

 

Cutaways

Hljómsveitin Cutaways er framlag Súðavíkur til hátíðarinnar í ár, þetta eru ungir drengir sem ganga í skóla í Súðavík og megum við sjálfsagt eiga von á því að sjá þá í Hörpu eftir ca. 5-6 ár ef þeir halda vel á spöðunum.  Þeir tóku þátt í samfestningum, söngvakeppni samfés fyrir hönd Súðavíkur með laginu Kyrlátt kvöld við fjörðinn, og hlutu þeir mjög góðar undirtektir þar, og ekki von á neinu minna á Aldrei fór ég suður.

 

 

HAM

Ég mæli með því að fólk geri viðeigandi varúðaráðstafanir áður en það fylgist með HAM, t.d. að vera ekki með neitt brotthætt meðferðis(eins og postulínstellið hennar Stínu frænku).  Einnig mæli ég ekki með því að fólk geri tilraun til að standa kjurrt,  þar sem það er ekki von á öðru en heljarinnar maníusbrjálæðisæðissnilldar kasti þegar þessar þungarokks goðsagnir stíga á svið.  Sem betur fer höfum við fallega smiðin hann Pétur Magg á okkar snærum, þar sem sviðið væri víst til að gliðna í sundur undan níþungu rokki HAM-liða ef minni menn sæu um smíði þess.  (Einnig vil ég benda yngri kynslóðinni á það að nota ekki nýja orðasambandið sem þið gætuð lært af HAM(Dauð Hóra), til að ná athygli ömmu í páskadagsboðinu.)  

 

 

Páll óskar og Sunnukórinn
Hann Pál Óskar þarf vart að kynna, enda einn af dáðustu söngvurum landsins og er hann jafnvígur á mjaðmaslengjandi europopp tónlist og ljúfsárar ballöður.  Í ár tekur hann höndum saman með hinum ísfirska kvennakór  Sunnukórnum, og verður án efa kátt í  skemmunni(sem breytist pottþétt í höll um leið) þegar diskóprins Íslands stígur á svið. (sinfó hvað!)

 


Postularnir

Samanstendur af undirrituðum og tveimur öðrum pungsveittum rokkurum.  Þeir komu saman í því markmiði að spila til þess að spila og hafa gaman af.  Útnárarokk með stuðmannarokksáhrifum.

 

 

GóGó Píur

Upprennandi söngdívur sem vert verður að fylgjast með í framtíðinni, þær tóku samfestinginn, söngvakeppni samfés með trompi og urðu þar í 3. sæti fyrir hönd Hólmavíkur.  En þau fluttu þar lagið Way beyond the blue með íslenskum texta eftir Arnar Jónsson, og er eflaust von á góðu frá þessum smástyrnum.

 

 

Lori Kelley

Er bandarískur söngvasmiður sem spilar fólk/popp/country af snilld sem aðeins kani gæti komið frá sér.  Hún hefur verið að frá því á unga aldri og hefur hún verið mjög virk vestan hafs, bæði að spila og gefa út. Með sér hefur hún einvala lið hljóðfæra leika eins og til að mynda trúbbgoðsagnina Gumma Hjalta og súðvíska krúttbombuna Eggert úr Súðavík.  Það verður gaman að sjá hvaða tónlistargjörning þessi kántrístuðbolti sýður oní pöpulinn!

 

 

Gísli Pálmi

Hinn eini sanni Gísli Pálmi þarf sennilega að koma vestur á vörubíl með tengivagni því að það dugir ekki venjuleg fokker flugvél, eða fólksbíll til að bera allt þetta swag yfir fjöll og fyrnindi.  Gísli Pálmi hefur verið að gera það gott undanfarið með villtum rímum með drynjandi bassatíðni og þéttum töktum.  Þetta verður swagalegt!