Andri Pétur Þrastarson | laugardagur 26. mars 2011

Listamenn og lífskúnstnerar árið 2011

Part dos.

 

Hér er annar hluti af ferðalagi okkar um víðlendur dagskráar Aldrei fór ég suður.  Þetta er spennandi ferðalag svo ekki gleyma að spenna beltin, því þetta eru ekki einhver smáatriði sem eru kynnt hér í dag.

 

Bjartmar og bergrisarnir

Sólin fær að súnka í hafið um páskana á Ísafirði, þegar Bjartmar og Bergrisarnir verma sviðið í KNH með suðrænni sveiflu og súrmjólk í hádeginu.  Bjartmar hefur með sér einvala lið hljóðfæraleikara og sýndist það og sannaðist á því hvernig það var frekar regla frekar en undantekning að lag af plötu þeirra Skrýtin veröld náði á topplista útvarpsstöðva landsins.  Þetta hefur verið góð tíð hjá Bjartmari og hlaut hann titilinn textahöfundur ársins 2010 á íslensku tónlistarverðlaununum!

 

 

Perla Sig

Hún Perla er ungur menntskælingur með röddina og gítarinn að vopni.  Hún syngur ljúfar ballöður, inflúensað af ást og innri baráttu.  Hún hefur verið að semja lög síðan hún var 12 ára og byrjaði að spila á gítar 13 ára með.  Hún á framtíðina fyrir sér þessi stúlka og verður gaman að fylgjast með frammistöðu hennar í ár, en síðast kom hún fram í söngvakeppni MÍ við góðan orðstír.

Hér er hún að flytja lagið Fighting í Listavélinni.

 

 

Páll Óskar Hjálmtýsson

Hver í stereó? Gördjöss? Og gerir allt fyrir ástina og kann að spara? Nú að sjálfsögðu Eurovisionfarinn, metsölulistamaðurinn og eigandi stærsta Glimmergallasafns Íslands Páll Óskar! Honum er meira til lista lagt en að trylla grímuklædda Ísfirðinga, og kemur nú til með að trylla liðið í lopapeysum og leðurjökkum. 100 rokkstig til Palla. 

Meðfylgjandi vídjó þarf ekki að kynna.