Ágúst Atlason | mánudagur 18. apríl 2011

Mugison - Hvað er í gangi?!?

Við höfum öll séð hann á gangi, í Súðavík eða á Ísafirði. Hann er líka reglulegur gestur í ljósvökunum og í loftinu, í radíóinu. Hann er Sómi Súðavíkur og hann er mjög mikill alþýðumaður, hann er mugison. Ég henti á hann nokkrum spurningum í fésbókarviðtalsstíl. Hann svaraði:

 

Segðu okkur aðeins frá þér?
Ég er sonur hans Mugga Hafnarstjóra á Ísafirði og hennar Kiddýjar í Reykjavík. Ég hef verið að föndra tónlist í nokkur ár. 

 

Hey, hvað er klukkan?
Það er alltaf afstætt. 

Á hvað mörgum hátíðum hefur þú spilað? Ártöl?
Held að ég hafi komið fram í einhverri mynd á þeim öllum. Hef verið neyddur til þess að svíkja eigin prinsipp einsog allir stjórnmálamenn. Ég ætlaði að fara eftir reglunni en þá hótuðu sponserar að bakka út - þannig að ég gaf sjálfum mér fríspil og leyfir að spila alltaf. 

Á listamannalista Aldrei fór ég suður er atriði sem heitir Lúðrasveit T.Í ft. Mugison, gætir þú útskýrt þetta aðeins fyrir okkur? Hverjir eru að spila í þessu og hvaða lög?
Háli Slikk gamli rokkstjóri kom með þessa hugmynd - hann er í Lúðrasveitinni. Held að hugmyndin sé að spila nokkur múkkalög með Lúðrasveitinni, hittumst á þriðjudag og þá kemur í ljós hvað gerist.

Nú nýverið kom lagið Haglél út sem er af væntanlegri plötu, hvenær kemur nýja platan út og hvað eigum við von á mörgum nýjum lögum?
Já slatti af nýjum lögum. Mig hefur lengi langað að gera plötu á íslensku en einhvernveginn ekki fundið tíma í það. Ég er að vonast til að hún komi út um mitt sumar.

Lokaorð eða skilaboð á crowdið?
Bara minna menn á að fylla alla vasa af góðum fíling og koma í skemmuna og vera með okkur um páskana.