Ágúst Atlason | laugardagur 31. mars 2012

NOKKRAR HUGLEIÐINGAR UM HVAÐ ALDREI FÓR ÉG SUÐUR ER FRÁBÆRT OG MAGNAÐ, FYRIR VEF HÁTÍÐARINNAR

Eftir Hauk Sigurbjörn Magnússon

Hæ,

Ég ætla að reyna skrifa hérna smá pistil eða hugvekju um Aldrei fór ég suður hátíðina og páskana á Ísafirði, eins og til að freista þess að koma sjálfum mér og öðrum í stuð (hún er alveg að byrja, HÁTÍÐIN). Ég hef skrifað frekar oft um Aldrei fór ég suður um mína daga; viðtöl, skoðanapistla, blogg og eitthvað (fréttaskýringar?). Og ég vona að ég hafi tækifæri til að skrifa mun oftar í viðbót. Aldrei fór ég suður er sannkallaður gleðigjafi, jákvætt afl á heimsmælikvarða og það er öllum hollt að geyma hausinn hjá henni um skeið.

Vá, það eru alveg að koma páskar, ha? Þeir eru rétt að bresta á. Rétt bráðum, þá verða þeir komnir. Þá verður ekki lengur bara miðvikudagur í mars eða mánudagur í apríl, nei þá verður Föstudagurinn Langi eða Páskadagur eða annar slíkur hátíðisdagur sem manni ber að skrifa með stórum staf.

Það er ekki laust við að það hríslist um mig sæluhrollur þegar ég hugsa til þess. 

Ef maður er fæddur og uppalinn á Ísafirði, eins og ég er og margir aðrir (t.d. Teddi vinur minn, sem átti afmæli þegar þetta er skrifað og ásamt Dóra bróður sínum er búinn að gera upp Hljómborgarhúsið okkur öllum til heilla), þá eru held ég páskarnir ansi þýðingarmikil hátíð og merkileg. Ég vil ekki leggja neinum orð í belg né meiningar, en ég held að flestir gætu tekið undir þetta (auðvitað ímynda ég mér að hið sama eigi við um Bolvíkinga, Súgfirðinga, Flateyringa og Þingeyringa og Súðvíkinga (og Hnífsdælinga og þá sem búa inní Firði (Fjarðarpúkar?)), en ég vil síður tala fyrr hönd þeirra). Í mínum huga hafa páskarnir alltaf verið rækilega límdir við Ísafjörð—fastir á milli fjallanna þar—og þau örfáu skipti sem ég hef neyðst til að þreyta þá annarsstaðar í heiminum hef ég varla tekið eftir neinu. Þeir eru bara eins og hver önnur helgi, þó maður sjái alveg páskalegt dót, eins og páskaegg og ælandi unglinga og svona.

Það gerist eitthvað á Ísafirði um páska og hefur alltaf gerst. Orkan og geðveikin sem fylgja því að sjá fyrir endann á myrkri og fannfergi og rólegheitum og inniveru, þegar dagurinn er farinn að lengjast og hugurinn að reika og loksins er komið almennilegt frí í þokkabót—það hefur kannski eitthvað með þetta að gera. Kannski ekki. En ég sækist allavega í hana, þessa sérstöku og æðislegu stemningu sem einkennist einhvernvegin af fullkominni blöndu af æsingi og rólegheitum og liggur yfir öllu og litar það, alla páskana. 

Það er meðal annars vegna þessa rólega æsings sem ég trúi því að hátíð eins og Aldrei fór ég suður hefði bara geta gerst á Ísafirði, og bara á páskunum. Ég er ekkert að reyna vera neinn þjóðernisfasisti hérna og hrepparígur er ógeðslega leiðinlegur—það er fullt af stöðum þarna úti sem eru ekki Ísafjörður eða nærliggjandi þorp sem eru alveg fínir til síns brúks, með góðu fólki og fallegu útsýni—þetta er bara svona eitthvað sem mér finnst. Maður verður að fá að vera pínu stoltur og montinn af heimaslóðunum, er það ekki?

Rólegur æsingur er það sem þarf til að njóta AFÉS. Maður þarf að vera æstur og hress og glaður að sjá alla, hitta vini og vandamenn og hlusta á fáránlega skemmtilega tónlist allan daginn og langt fram á nótt, en maður þarf líka að temja sér rólyndi og yfirvegun svo að öll orkan spríngi ekki í loft upp og maður missi af seinni helmingnum eða hlaupi til fjalla eða eitthvað.

Maður þarf að geta hedbangað með HAM, en líka svona létt svíngað við Kiru Kiru. Maður þarf að geta gefið ótrúlega smellnar og háværar fimmur, en líka að fatta hvenær er betra að faðma kyrfilega. Maður verður að halda lífi í partýinu, en fatta að fara um leið og húsráðandi óskar þess.

Þetta er svona pínu eins og Sókrates sagði:

“Verði stuð! En passið ykkur samt að það verði ekki svo mikið stuð að batteríin klárist! Og munið að styrkja hátíðina með því að kaupa boli og nærhöld skreytt merkjum hennar”
-Sókrates

Þetta er líklega tíunda greinin í einhverju formi sem ég skrifa um hátíðina. Ég hef skrifað greinar um Aldrei fór ég suður alveg frá því hátíðin hófst, í alla fjölmiðla sem ég hef starfað við held ég, nema ef skildi vera Bæjarins Besta (því hátíðin var ekki til þegar ég vann þar). Og ég hef haft ánægju af. Ég elska Aldrei fór ég suður, Ísafjörð, páskana, fjölskylduna mína, alla vini mína og líka þá sem ég hef aldrei hitt. Vá hvað það er gaman. Ég iða allur af tilhlökkun, ég get eiginlega ekki einbeitt mér að því að skrifa þetta.

Meðan ég iða. Hér eru nokkrar setningar eða málsgreinar sem ég hef skrifað um AFÉS síðast áratuginn, svona upp á djókið:

---

“Let us not beat around any bush: Mugison is a golden god, and he is a shining path. So is his father, Muggi, and so, in fact, are all of the magnificent people who have toiled for the past months to make the Aldrei fór ég suður music festival happen for the fourth time since its inception in 2004.”

---

“Í partýinu eftir ballið gerði söngvari Múgsefjunar þráfaldlega tilraunir til að útiloka sig frá útvarpsspilun á Rás 2 með því að rífast í Óla Palla. Ég vona þeir hafi tekið sönsum undir rest, fallist í faðma og við fáum einhverntíman að heyra Múgsefjunar-spesjal í Rokklandinu og Óla Palla kynna þá á tónleikum daginn eftir, enda ættu þessir aðilar að eiga gott skap saman af tónlistinni að dæma.”

---

“En ég verð bara að segja frá því að í morgun, þegar vélin með poppurunum tókst á loft, kom það svo við nokkra þeirra, þá sem voru hvað rauðastir í augunum og ruglaðastir í hausnum, að þeir köstuðu myndarlega upp!”

---

“Mugison waxes on, emphasising the nature of AFS as one big group effort of modern-day barn raising. “A lot of people pitch in and help out, and that’s what’s important. AFS really wouldn’t be anything were it not for the awesome folks that put in tremendous work each year to ensure we have a festival. Some of them, like Ísafjörður’s son in law Jón Þór Þorleifsson, reel in sponsors and funding relentlessly and creatively, while others build our stage or man the soundboards.”


---

“--Djöfull er Megas í miklu stuði hérna fyrir utan. Ég vona að hann fari að finna eitthvað partý bráðum.”


---“Rokkhátíð alþýðunnar og réttnefnd árshátíð íslenskra músíkanta, Aldrei fór ég suður, er við það að bresta á, rétt eins og hún gerir hverja páska. Þegar hafa fregnir borist af því að hátíðin góða sé við það að sprengja utan af sér húsnæðið, og gistirými á Ísafirði eru eftirsótt og umsetin eins og fótanuddtæki á níunda áratugnum eða kúlulán árið 2006, enda kemur þar fram úrval af ástsælasta tónlistarfólki landsins”

---

“TRAAAABAAAAANT!”

---

“Sumir eru komnir í bjórinn. Aðrir ekki. Á meðan puðar rokkkstjórinn Háli Slick við að koma öllu heim og saman og hnýta lausa enda. Hálfdán er tröllvaxinn með eindæmum og mikil hetja í þokkabót; einmitt manneskjan sem þarf til að tryggja að ekkert fari úr böndunum, nema stuðið. Sjitt.”

---

“Sjitt, nú er Megas byrjaður aftur í partýleitinni hér fyrir utan. Og gott ef ég heyri ekki í Bent nálgast líka. Þarf þetta fólk ekkert að sofa?”

---

“Og salurinn hóf að iða, fólk öskraði, slammdansaði og fór í sleik. Margir í sleik hérna fyrir vestan – rómantískt umhverfi líklega. Og fyllerí. Íslendingum þykir best að fara í sleik á fylleríi.”

---

“The days of cash-bloated corporations throwing money at anything that moves in an artful manner are behind us, and most corporate sponsored events are now forced to dramatically scale down –lest they shut down completely.

Not Ísafjörður’s Aldrei fór ég suður.”

---

“Páskarnir eru erfiðir. Ég er viss um að Jesú fannst páskarnir erfiðir, því hann var krossfestur og svona. Ég hef ekki verið krossfestur, en mér finnst þeir samt aðeins erfiðir. Það er erfitt að vera alltaf í svona miklu stuði, drekka bjór, hlæja, hitta gamla vini og horfa á hljómsveitir.”


---

OK. Þetta var skemmtilegt. Og mikill heiður að fá að blaðra aðeins á þessari mögnuðu síðu. Ég hlakka til að hitta okkur öll á páskunum. Sjáumst þar!

 

---

 

Haukur ætlar meira að segja að spila á Aldrei fór ég suður í ár, með hljómsveitinni Reykjavík! (þú getur lesið um hana á www.facebook.com/reykjaviktheband). Hann hvetur þig til að koma á hátíðina og dansa með, og líka til að éta hjá mömmu hans og pabba og öllum í Tjöruhúsinu. Og til að kíkja á nýja staðinn þeirra Tedda og Dóra. Og fá sér að prjóna hjá Gerði í Heitt á prjónunum. Og líta við hjá Jóa í Bókhlöðunni og hjá Heló í bókasafninu. Rúnta á Suðureyri, kíkja í sund. Skoða Raggagarð í Súðavík og Simbahöllina á Þingeyri. Vera í stuði. OK.