Andri Pétur Þrastarson | fimmtudagur 8. mars 2012

Nokkur ráð til AFÉS-fara frá Plebbanum

Plebbinn veitti aldrei.is þann mikla heiður að gefa okkur nasasjón af því hvernig hann mun rúlla um páskana, og (á góðri íslensku) störtum við þannig gestapistlaröð aldrei.is.  Sem mun vera óreglulega reglulegur viðburður fram að hátíð.

 

 

 

Nokkur ráð til AFÉS-fara frá Plebbanum
Það kann að koma sumum spánskt fyrir sjónir að Plebbinn, þessi malbikselskandi, pjattaði borgarpiltur skuli hætta sér út fyrir borgarmörkin í erindagjörðum öðrum en þeim að heimsækja sumarhúsið sitt (sem að sjálfsögðu er staðsett í Hamptons Íslands). En ég þori, vil, og get heimsótt Íbizafjörð (einhverra hluta vegna halda einhverjir að staðurinn heiti Ísafjörður en svo er ekki, þetta er Íbizafjörður) á ákveðnum stundum. Ein þeirra stunda er Aldrei fór ég Suður – Rokkhátíð Alþýðunnar.
 
Já, þú last rétt, Alþýðunnar. Ekkert að óttast samt, ég er ekki búinn að kaupa mér hlaupaskó, flíspeysu og hólkvíðar kana-gallabuxur, heldur stunda ég Rokkið eins og Plebbum sæmir – með fágun. Því eins og ég hef oft sagt áður – þegar allt kemur til alls, snýst þetta bara um að vera flottur.

Eins og gefur að skilja fylgir alltaf þónokkur áfengisneysla stórviðburðum sem þessum (að sjálfsögðu einungis hjá þeim sem hafa aldur til og allt það). Þarna finnst mér, sem Plebba og almennum lífsnautnasegg, mjög mikilvægt að missa ekki sjónar á öðru boðorði Plebbans - að vera njótandi en ekki neytandi. Þó að ríkið á Íbíza sé kannski ekki jafn stórt og Heiðrún, þá er samt ágætis úrval af góðum bjór. Ekki pína ofan í þig eitthvað óbjóðandi fylleríspiss, njóttu þess að sötra á góðu öli.

Krílið, Hamraborg og Thai Koon (lítill fugl hvíslaði því að mér að það væri besti taílenski matur á Íslandi) eru allt klassastaðir sem vert er að prufa, en það má ekki gleyma að á hótelinu er fínasti veitingastaður, Við Pollinn, sem er um að gera að heimsækja þegar mann hungrar í eitthvað annað en skyndibita.

Fyrir þá allra bröttustu, þá er ágætis höfn við bæinn, og veit ég til þess að fólk hafi búið í skútum (jú, eða snekkjum) við bryggjuna. Þannig ef þig langar í siglingu, og þér er sama um kuldann (svona í alvöru, hvað er í gangi með veðrið? Hvar er þetta Global Warming sem var verið að lofa okkur um daginn?) þá gætirðu brotið blað í sögu hátíðarinnar og haldið fyrsta snekkjupartý Aldrei fór ég Suður. Ekki amalegt það.

Þó svo að hátíðin verði í Slippnum (sem er held ég eitthvað svona þar sem skip eru máluð?) þá þýðir það ekki að gestir þurfi að vera í ljótum fötum. Ég mæli með því að karlkyns gestir pakki eins og að lágmarki einu hálstaui, til að skarta á einhverjum tónleikunum, fyrst við erum nú að gera okkur dagamun. Sömuleiðis er nauðsynlegt að vera með dansleikjafatnað - það eru meiri líkur en minni á því að þú endir á einum svoleiðis (því miður er þar dansað eitthvað annað en vínarvals og foxtrott, en maður lítur framhjá því í svona eitt og eitt skipti - það eru nú einusinni Páskar).

Að lokum. Það besta við Íbízafjörð er að það eru allir svo kammó þar, það er alltaf voðalega indælt að koma þangað. Ég veit ekki hvað það er, líklega eitthvað í vatninu. En sama hvað það er þá skulum við fyrir alla muni skemmta okkur fallega. Sjáumst á Afés!

P.S. Íbízafirðingar munu líklega reyna að halda því fram að Aldei fór ég Suður sé á Páskahelginni. Sem er náttúrulega út í hött. Aldrei fór ég Suður er um Páskahelgina, ekki á henni. Höfum það á hreinu.

P.S. 2 Ég bið ykkur vinsamlega um að nota hashtag-ið #Ibiza2012 þegar þið twittið á hátiðinni (allir sem eru eitthvað eru með twitter - sönn saga).