Rúna Esradóttir | fimmtudagur 28. mars 2013

Plast rotnar ekki

Einmitt þegar blaðamaður reynir að ná tali af Ragnari Ágústi Kristinssyni er hann að hífa gámafleti upp á pall og að koma snjótroðara niður á Hafnarstræti fyrir sprettgöngu Kraftsports.  Hér er ekki verið að slá slöku við.  Ég náði tali af Ragga inn á Kirkjubóli eftir hamaganginn. Gámaþjónusta Vestfjarða hefur leigt Grænagarð í vetur af Byggðastofnun en þar er skemman þar sem Aldrei fór ég suður er haldin í ár.

 

Þið segið á heimasíðunni ykkar gamarvest.is að dugnaðarforkar væru í óða önn að tæma vinnuaðstöðuna.

Hverskonar starfsemi er iðkuð í þessu húsnæði þegar ekki er verið að halda tónlistarhátíð?

Undir venjulegum kringumstæðum er verið að pressa plast og pappa með gríðarlega öflugri 40 tonna pressu þarna inni, þetta efni er fengið frá Bolungarvík, Vesturbyggð, Súðavík og Ísafirði til endurvinnslu. Síðan í nóvember höfum við safnað 100 tonnum sem fóru með skipi beint frá Ísafirði til Rotterdam í vikunni.  Okkar efni fer þar beint á markað, þar er öllu raðað upp, hollensk endurvinnslufyrirtæki mæta og bjóða í eins og t.d. plastið, við leggjum mikið upp úr því að allt okkar efni sé vel unnið.


Það skiptir máli að flokka ruslið við rokkararnir áttum okkur á því, erum við að flokka rétt og vel?

Það má alltaf að gera betur, mér er illa við að skamma fólk, en þegar við fáum plastpoka með mjög mikið af skítugu efni eins og skyrdollur með skyrinu í og þess háttar, þurfum við að henda honum.

 

Hvernig getum við gert betur?

Það væri mjög sniðugt ef verslanir byðu upp á glæra poka fyrir vörurnar það myndi gera flokkunina heima mun auðveldari og aðgengilegri. Að flokka í glæra poka skiptir gríðarlega miklu máli.

 

Við Raggi fórum á flug með hvernig hægt væri að auka meðvitund fólks um mikilvægi þess að flokka, hægt væri að gera heimildarmynd um ferðalag skyrdollunnar.

Raggi segist einnig sjá 40 ára gamalt sorp koma upp úr gamla ruslahaugnum við Orkubúshúsið og gömlu mjólkurpokarnir eru ennþá læsilegir, plastið rotnar bara ekki. Þess vegna er mikilvægt að nota maíspokana undir sorp, þeir rotna.

 

Gámaþjónustan er 25 ára á árinu, Ragnar átti þetta fyrirtæki þar til Gámaþjónustan hf. í Reykjavík keypti allt hlutafé fyrir 6 árum, hann gerðist í kjölfarið eigandi þar. 

Viðmælandi minn hefur alla tíð haft þá hugsjón skýra að öll starfsemi Gámaþjónustu Vestfjarða sé staðsett hér fyrir vestan, þetta er vestfirskt fyrirtæki.  Hvert einasta starf skiptir miklu máli hér. Mikið vatn hefur runnið til sjávar og hér vinna um 13 manns í dag.

 

Ég kveð þennan hressa mann með handabandi, leið mín liggur niður á Bræðraborg í þessu yndislega veðri, keyri framhjá skemmunni margumtöluðu og sé Hálfdán Bjarka á lyftaranum með bjórtjaldið á bretti.