Ágúst Atlason | þriðjudagur 26. apríl 2011

Rokkhátíð er ekki bara spilerí, líka kruðerí!

Já, sko, ef þú hélst að það að halda rokkhátíð væri bara hljómsveit á sviði, þá hafðiru all svakalega rangt fyrir þér :) Þegar hrúga af snillingum mæta á svæðið og ætla að spila frítt, þá er lágmark að þeim líði vel á meðan þeir eru hérna. Partur af Aldrei fór ég suður er að láta þessum ósjálfselsku, frábæru, yndislegu, og hvað sem þér dettur í hug jákvætt, listamönnum, líða vel og þá eru matartímarnir mikilvægir því flestir eru sáttir á meðan þeir eru saddir. Sú hefð hefur skapast að bjóða upp á brunch dagana eftir tónleika, semsagt laugardaga og sunnudaga á milli 11:00 - 14:00 á heimavist Menntaskólans á Ísafirði, en þar sofa bróðurpartur popparanna. Poppararnir eru alveg að fíla þetta og heyrði ég því fleygt að þetta væri stakasta snilld, maður æddi þá aldrei svangur í bæinn! Ung stúlka sem var þarna með föður sínum honum Eldari komst svo að orði: "Besti veitingastaðurinn í öllum heiminum!" og Borkó átti þessi orð: "Þetta er unaðslegt!"

Svo þarf náttúrulega líka að elda þetta og sáu þær Nanný og Ása um að allt væri á sínum stað og sáu svo þessar fallegu heimasætur sem eru þarna á myndinni um að bera þetta fram, allavega þegar mig bar að garði. Þær voru svo elskulegar að bjóða mér upp á disk og mátti ég svo bara fylla hann af góðgæti sem flæddi hreinlega af borðinu. Ég fékk mér brauð, egg og bacon, skonsur með smjöri, kleinu, gulrót og tómata......S L Ú R P ! (Elín reddaði mér meira að segja tómatsósu!).

 

Eeeeeen, við megum ekki gleyma einu...það er ekki nóg að halda rokkhátíð og bjóða upp á kruðerí fyrir snillinga, með frábærum sjálfboðaliðum og umsjónarmönnum.....neeeeeeeeeeeei!

 

Einhver þarf að kaupa í soðið og þarna kemur sterkt inn hversu samheldin við erum hérna á Ísafirði, en Borea Adventures og Kampi buðu upp á allan mat sem þarna var í boði, þrjátíufallt H Ú R R A fyrir þeim!