| mánudagur 19. mars 2012

Rokkpistill fyrir kaffiandfúla háskólanema og alla sem þá þekkja

Þó svo hin margumtalaða prófljóta sé ekki enn mætt að fullu, þá er ekki erfitt að þekkja háskólanema úr fjarlægð. Við erum flest(mörg – ekki öll, sum ykkar eru enn þokkalega sæt) með úfið og óhreint hár, nagaðar neglur, bauga, kaffiandfýlu og mistaugaveiklað útlit – sitjandi inná lesstofu mastersnema þrátt fyrir að vera enn í grunnámi(þið sem eruð enn í BA/BS vitið uppá ykkur sökina). Þar þykjumst við læra en erum í raun bara að tala um hvað það er ógeðslega mikið að gera, stalka sæta gæjann sem situr á móti okkur á facebook eða plana næsta djamm/næstu kaffipásu.

 

Þar sem ég undirrituð tilheyri klárlega hópnum sem lýst var hér fyrir ofan(og sit einmitt inná masters – að skrifa þennan pistil) veit ég að ferðum mínum útaf facebook og inná www.aldrei.is fer fjölgandi í takt við dagafjölda fram að hátíð. Og í staðinn fyrir að ýta endalaust á refresh takkann inná facebook stend ég mig að því að setja Aldrei fór ég suður síðuna í upphafssíðu og kíki þangað inn á 10 mínútna fresti og eftirvæntingin eftir listamannalistanum magnast upp með hverju refresh-i!

 

Á aldrei fór ég suður er margt skemmtilegt fyrir hinn almenna háskólanema sem annars leggur leið sína að öllu jöfnu ekki nema á milli lesstofu og Hámu til að sækja sér enn einn kaffibollann eða fimmtu kókoskúluna þessa vikuna. Listamannalistinn er að detta inná og þar sem við erum alltaf að röfla um blankheit, þá erum við að móðga hugtakið fátæki námsmaðurinn með því að fúlsa við tveggja daga ÓKEYPIS tónlistarveislu.

 

Á þessari margrómuðu rokkhátíð aukast líkur á sleik um u.þ.b. 148% og þó það hljómi eins og rússnesk tölfræði þá get ég sagt ykkur SPSS nördunum að þetta stenst. Ísafjörður er morandi í skemmtilegu fólki, bæði heimamönnum og aðkomumönnum, myndarlegir skeggjaðir rokkarar bókstaflega flæða um svæðið og sætar og skemmtilegar stelpur, strípaðir Selfyssingar og allskonar skvísur, Frakkar, Þjóðverjar og allra þjóða kvikindi mæta á AFÉS. Allir hipsterarnir af Kaffibarnum og Bakkus mæta að sjálfsögðu líka. Og þú elsku háskólanemi, mátt ekki missa af þessu.

 

Ólíkt plebbanum þá erum við háskólanemarnir ekki lengi að draga fram lopapeysuna og converse skóna. Setja tilheyrandi vökva í fleyginn fallega og fleygja skólabókunum útí horn. Við þurfum enga fancy gistingu á Hótel Ísafirði, okkur nægir dýna á gólfi hjá vini vinar eða aftursætið í bílnum sem við keyrðum í vestur. Enda erum við jú, alltaf að væla um það hvað við erum blönk.

 

Ég veit það, þú veist það, mamma þín og pabbi vita það, þú ert ekki að fara að læra á páskahelginni – svo í staðinn fyrir að hanga uppí skóla, og væla um hvað það sé mikið að gera hjá þér, reddaðu þér þá fari, náðu í svefnpokann og drífðu þig vestur! 

 

Og þið ykkar sem eruð að skrifa BA/BS ritgerðina ykkar og segist ekki geta komið, Í ALVÖRU TALAÐ þá munu tveir dagar í dansandi trylltum sleik á rokkhátíð alþýðunnar ekki breyta miklu um framvindu þessarar ritgerðar, ef eitthvað er þá mun það bara gefa ykkur aukna orku og breytta sýn á viðfangsefnið!

 

Taktu þessa páska á annað level – Komdu og rokkaðu fríkeypis!

 

P.s. Og já já, taktu bara með þér námsbækurnar. Þú mátt alveg trúa því að þú munir læra á daginn, eða í bílnum á leiðinni eða þegar þú vaknar þunn/þunnur á morgnanna(uppúr hádegi) eða á meðan vinir þínir hamborgara sig í gang í Hamraborg eða hvernig sem það er. Vertu bara ekkert að gera ráð fyrir of mörgum blaðsíðum í lestri á dag.