Ágúst Atlason | fimmtudagur 21. apríl 2011

Sætaferðir á AFÉS

Sætaferðir verða frá Pollgötu á Ísafirði að húsnæði KNH þar sem rokkhátíðin Aldrei fór ég suður fer fram bæði föstudag og laugardag. „Við ætlum að byrja kl. 18 báða dagana og förum svo bara eftir þörfum. Ef það verður mikill straumur verðum við jafnvel með tvo bíla,“ segir Friðfinnur Sigurðsson, eigandi F&S hópferðabíla ehf. á Þingeyri. Hann segir að það fari eftir aðsókn hversu lengi ferðirnar verða í boði. „Við verðum eins lengi og þarf, en þegar umferðin dettur niður þá látum við okkur hverfa og leigubílarnir taka við.“ Þá munu F&S hópferðabílar einnig standa fyrir ferðum frá Þingeyri. „Og þeir sem gista hjá mér á gistiheimilinu Við Fjörðinn fá fríar ferðir.“ Ferðir frá Þingeyri kosta þúsund krónur en innanbæjar á Ísafirði kostar farið 200 krónur.

 

Þá verða einnig sætaferðir í boði til og frá Einarshúsi á Aldrei fór ég suður. Farið verður frá Einarshúsi kl. 19.30 og 20.30 á föstudag og farið frá hátíðinni kl. 00 og 01. Á laugardag verður farið frá Einarshúsi kl. 17.30 og 18.30 og til baka frá hátíðinni kl. 00 og 01. Nánari upplýsingar um það er að finna á vefnum vikari.is.

 

Þessi frétt er fengin hjá henni Thelmu á bb.is