Rúna Esradóttir | þriðjudagur 26. mars 2013

Skugginn hans Ómars Helga

Eftir góðan Afésfund á hafnarskrifstofunni liggur leiðin inn í Netagerð.  Það á að skoða trollið sem á að hanga yfir sviðinu á hátíðinni. Ómar er snar í snúningum og vippar sér upp tröppurnar upp á loft Netagerðarinnar, skugginn fylgir fast á eftir og þar opnast annar heimur.  Gufan í gangi og menn standa við strengt net með netanálar í annarri og vasahníf í hinni, handtökin eru vön, þétt og einkennast af stóískri ró.  Við hittum Gulla sem tekur á móti okkur með kankvísu brosi og hlýleika, hann leiðir okkur niður og bendir upp í rjáfur þar sem samanvöðlað trollið bíður.  Ómar vippar sér á ný inn í bíl " ég ætla að ná í lyftara, veistu ég safnaði einu sinni lyfturum, átti eina 5, mátti ekki safna hári skilurður".  Skugginn efast ekki um þessa staðreynd.  Trollið er tekið niður og flutt niður á höfn.  Svo var hafist handa við að leysa úr því.  Trollið verður svo hengt upp í loft og mun þjóna því hlutverki að taka á móti og dreifa kærleik og stuði inn í KNH skemmunni á meðan rokkhátíð alþýðunar Aldrei fór ég suður stendur yfir.