Ágúst Atlason | sunnudagur 3. apríl 2011

Sokkabandsárin

Hvað áttu þessar mætu konur og húsfrúr, garðyrkjusnillingar, rauðakrosskonur, verkalýðs&tryggingakonur, dýralæknar og örugglega margt margt margt fleira sameiginleg?!?

  • Ásthildur Cesil Þórðardóttir
  • Oddný Lína Sigurvinsdóttir
  • Bryndís Friðgeirsdóttir
  • Rannveig Ásgeirsdóttir
  • Ásdís Guðmundsdóttir
  • Eygló Jónsdóttir
  • Ingunn Björgvinsdóttir
  • Björk Sigurðardóttir
  • Bára Elíasdóttir
  • Fjóla Magnúsdóttir

Jú, þetta er Sokkabandið, sú alræmda kvennahljómsveit frá Ísafirði! Og, þær spila á Aldrei fór ég suður 2011!

 

Þegar ég var ungur maður, man ég eftir nokkrum tónleikum með þeim, mamma þeirra Inga, Júlla, Báru og Skafta var þarna og þær voru ógurlega kúl konur, svona Grýlur okkar ísfirðinga. Maður sá þær í sjónvarpinu og svona og fyrir manni höfðu þær hreinlega meikað það. Því er nokkuð merkilegur hlutur að þær ætli að koma saman og trylla okkur á Aldrei fór ég suður í ár. Mér skilst að þær munu mæta sem flestar og taka þátt, en tímabilin í bandinu voru mismunandi fyrir þessar fínu frúr. Ég tók mér það bessaleyfi að birta texta frá Facebook síðu þeirra stúlkna:

 

Sokkabandið var stofnað á Ísafirði 1982 og var önnur kvennahljómsveit Íslands á eftir Grýlunum (1981). Hljómsveitin var stofnuð eftir að meðlimir hljómsveitarinnar Gabríel voru með skemmtiatriði á árshátíð Uppsala(Sjallans) snemma árs 1982, þar sem þeir létu konurnar sínar spila eitt lag á sömu hljóðfæri og þeir spiluði á. Lagið var "Ever lasting love". Tvær þeirra sem tóku þátt í þessari uppákomu, Oddný og Eygló, langaði að halda áfram og stofna kvennahljómsveit og fengu til liðs við sig Ásthildi Cesil sem var þaulreynd í bransanum. Eftir nokkra leit að hljómborðsleikara og trommuleikara þá komu Rannveig og Bryndís til liðs við bandið. Nokkru síðar var söngkonan Ingunn einnig tekin inn í hljómsveitina. Þá var tekið til við að semja og æfa og stemmt á tónleikahald. Hljómsveitin vakti gríðarlega athygli og fékk vart frið fyrir ágangi fjölmiðla. Voru nánast öll blöð landsins búin að senda blaðamenn sína til þess að taka viðtöl við Sokkabandsmeðlimi áður en hljómsveitin hafði spilað eina einust nótu opinberlega. En Sokkabandinu tókst að semja og æfa stórt prógram og hélt eins og hálfs tíma tónleika fyrir fullu húsi á Uppsölum haustið 1982. Aðal lagahöfundar hljómsveitarinnar voru Ásthildur og Oddný en Rannveig samdi einnig einhver lög en hún var aðeins 15 ára gömul. Nokkrar mannabreitingar urðu svo í gegnum þau þrjú ár sem hjómsveitin starfaði en Oddný og Ásthildur störfuðu með bandinu allan tíman. Ásthildur gaf svo út plötuna Sokkabandsárin árið 1985 þar sem má finna fjölmörg af þeim lögum sem Sokkabandið spilaði.

 

Svo má skoða þessi vídeó síðan þær voru á fullu í bransanum:

 

Myndband frá músiktilraunum 1982:

 

 

Og eitt enn:

 

 

Og annað hér:

 

 

Hvetjum við alla til að missa alls ekki af þessum einstaka viðburði!