Aldrei fór ég suður | þriðjudagur 8. febrúar 2011

Stuðmælingar íbúa í Edinborgarhúsinu!

Stuðmælingar íbúa í Edinborgarhúsinu! - Opinn borgarafundur vegna Aldrei fór ég suður! Fimmtudaginn 10. febrúar kl. 20.00 munu aðstandendur tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður, bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og velunnarar hátíðarinnar blása til opins borgarafundar í sal Edinborgarhússins á Ísafirði. Aðal umræðuefni fundarins verður Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, framtíð hennar og framþróun. Farið verður yfir síðustu hátíðir, hvað hefur verið gert rétt og hvað ekki og viðraðar verða hugmyndir um hvert hátíðin getur þróast.

Af forsvarsmönnum hátíðarinnar hafa heyrst fregnir af hugsanlegri þreytu en þær fregnir eru stórlega ýktar og ljóst að menn hafa fengið einhvers konar endurnýjun lífdaga í kjölfar stuðsamkomulags bæjaryfirvalda og vestfirðinga allra. Í ár hafa íbúar Ísafjarðarbæjar og nágrannabyggðarlaga nefnilega lýst yfir vilja til að bretta upp ermar og aðstoða við hátiðina og er því markmiðið að safna saman í góðan og öflugan hóp vaskra meyja og sveina til að stuðla að öflugri hátið í ár. 

Takmark hátíðarhaldara er að ná samhug í verki og fá alla með í stuð. Stuð er mikilvægt. Þess vegna verður fundurinn stuðmældur með nýjustu tækni, stuðmæli sem hannaður var sérstaklega fyrir þetta tilefni en eins og flestir vita er stuð mælt í travoltum (tV). Með stuð að vopni er okkur allt mögulegt, þegar stuð heimamanna er tryggt mun það smitast til gesta okkar og ekki síst til allra þeirra sem koma munu fram á hátíðinni. Það eru fyrst og fremst tónlistarmennirnir sem gera þessa hátíð að því sem hún er og það er einbeittur vilji okkar að þeir fái greitt í gleði, kærleika, ánægju og stuði allra á svæðinu. 

Aldrei fór ég suður verður nú haldin í áttunda sinn en ævintýrið hófst árið 2004. Hún mun fara fram um páskana, n.t.t. frá 20. - 24. apríl en hátíðin hefur náð að teygja vel úr sér yfir helgina með metnaðarfulla dagskrá af ýmsum toga. Nefna má að síðustu tvö ár hefur verið haldið málþing samhliða hátíðinni um margt sem viðkemur tónlistariðnaðinum, myndlistarsýningar, uppistand og svokölluð "off venue" dagskrá. Tilkynnt verður um þau dagskráratriði sem eru klár, hverjir munu standa á baki hátíðinni á ár og hverjir munu hýsa hátíðina. 
Sjáumst vonandi sem flest….í stuði! 
Kv, Stjórnin …..og Sigga Beinteins, nei, djók!