Kristján Freyr Halldórsson | föstudagur 21. apríl 2017

TAKK!

TAKK!

Takk, þið öll sem komuð og skemmtuð ykkur fallega á Aldrei fór ég suður í ár. Eins og ávallt eru stjörnur hverrar hátíðar einmitt þið, gestirnir sjálfir. Hver einasti tónlistarmaður talar ávallt vel um viðtökur gesta og jákvæða orku í salnum.

Takk, þið öll sem komuð fram á hátíðinni. Þið skiluðuð 100% ómengaðri gleði frá ykkur af sviðinu og út í sal. Það er stórkostlegt að fylgjast með ykkur og við erum þakklát fyrir ykkar framlag og að þið séuð ávallt tilbúin að heimsækja okkur á Ísafjörð um páskana ... nei, ég meina á páskunum.

Takk, þið öll sem hjálpuðu til við að koma hátíðinni á koppinn. Þið eruð fjölmörg og þið vitið hver þið eruð. Það eru fjölmörg handtökin og í raun fáir hér fyrir vestan sem ekki koma að hátíðinni á einn eða annan hátt.

Takk, fyrirtæki og einstaklingar sem styðja við bakið á hátíðinni. Takk húsráðendur skemmunnar. Takk bæjaryfirvöld, takk lögregla, slökkvilið, áhaldahús og allir sem hjálpuðu til við utanumhald. Við erum ákaflega stolt að leiða ykkur öll að plógnum hvert ár í þessu fallega samfélagsverkefni.

Takk, Ísafjörður fyrir að skarta þínu fegursta og gera okkur stolt. Takk Flateyri, takk Suðureyri, takk Súðavík, takk Bolungarvík, takk Þingeyri og takk Hnífsdalur! Takk vinir okkar á sunnanverðum Vestfjörðum. Takk Vestfirðir, þið rokkið!

Takk fyrir að hlusta á rokkstjórann. Undirritaður óskaði þess að hver gestur hefði að leiðarljósi „Þrjú vöff rokkstjóra”: 
V#1, Virðing, berum virðingu fyrir öllum í kringum okkur. 
V#2, Varningur og veitingar, kaupum af hátíðinni og tryggjum fjármögnun næstu hátíðar. 
V#3, fílingur, verum öll í góðum fíling og skemmtum okkur fallega.
Það er engu líkara en að hver og einn hafi glósað þetta niður - allt gekk þetta upp og meira til.

Takk Aldrei fór ég suður, fyrir að vera heimilisleg fjölskylduhátíð, fyrir að vera mátulega töff, fyrir að vera temmilega sveitó, takk fyrir að færa okkur bros og takk fyrir að sprauta stuði yfir samfélagið hverja páska. Haltu því endilega áfram um ókomna tíð!

Takk, elsku rokkstjórn. Þið eruð hetjur!

TAKK!

F.h. Aldrei fór ég suður

Kristján Freyr