Andri Pétur Þrastarson | fimmtudagur 31. mars 2011

TOSSALISTI AFÉS!

Mikilvægir hlutir sem þarf að muna(og gleyma) að taka með á hátíðina

 

Í spenningnum sem fylgir því að líða fer að Aldrei fór ég suður á það til að ske að maður gleymir mikilvægum hlutum.  Ég skellti því í smá tossalista fyrir þá sem eru virkilega slæmir í þessu , eða þekkja einfaldlega  ekki hvað er til siðs á hátíðinni.  Mælt er með því að þetta verði prentað út og haft við hliðiná tímaplaninu á ískápnum.

 

Ullarpeysa

Er algjört möst hvort sem maður ætli að vera trylltur í áhorfendahópnum eða spjalla í nepurðinni fyrir utan KNH.  Það á það til að vora seinna hér á Ísafirði heldur en hjá landsbræðrum og systrum í Reykjavík... fyrir utan það náttúrulega hvað lopapeysur eru fáranlega töff.

 

Leðurjakki

Ullarpeysan gefur þér hlýju og nokkur kúl stig, en leðurjakkinn sprengir alla kúl skala.  Jakkin hefur líka þann eiginleika að geta hrint frá sér vökva, sem ullin myndi annars sjúga í sig.  Og þetta er nú rokkhátíð, það er fátt sem öskrar ROKK hærra heldur en leðurjakki! 

 

Hentugur skóbúnaður

Þó maður megi ekki missa af einu einasta atriði á hátíðinni þýðir það ekki að fæturnir þurfi að líða fyrir það.  Hvort sem það eru hæluðu kúrekastígvelin, eða góðir gönguskór þá er gott að vera vel skóaður.  Þú skalt samt ekki taka dýrasta parið niðreftir þar sem gólfið á það til að verða ansi drullugt.
Pro tip:  Ullarsokkar eru alltaf solid á fæturna.

 

Vettlingar

Ef það á að súpa á vökva úr dós, flösku eða glasi whattever getur verið erfitt að vera með hendurnar í vösum á sama tíma.  Góðir vettlingar eða glóvar ættu að koma í veg fyrir mesta doðan.

 

Reiðufé

Það þarf nú vart að útskýra þetta frekar?  Allskyns varningur er seldur á hátíðarsvæðinu, bæði af aðstandendum og svo listamönnum sem oft á tíðum eru að bjóða tónlist sína á spottprís og þá er gott að vera með lausa seðla.
(Ekkert verra að hafa með sér kort líka.)

 

Myndavél

Það eru ekki eitt eða tvö heldur milljón Kodak moment sem bjóðast á hverri mínútu á hátíðinni, ekki vera plebbi með hendur í vösum(eða vettlingum), heldur spreyttu þig í listrænum portrett myndum af listamönnum og hátíðargestum.  Ekki vantar skrautlegu karakterana þarna niðurfrá. Muna svo að senda flottu myndirnar á aldrei.is!

 

Vestfirsk/Íslensk (smá)orðabók

Undirritaður(þó að í þessu tilfelli sé það yfirritaður) er að vinna að vestfirsk íslenskri orðabók sem á að vera fáanlegum í öllum betri bókabúðum landsins á næstu misserum.  Hér bíð ég uppá smá sýnishorn úr þeirri bók.

Á helginni, orðsb.

-Á kjálkanum er ekkert um helgina neitt, ekki láta grípa þig við að svívirða þessa alræmdu ísfirsku mállýsku.

 

Púki,-a,-ar K.

-Ekki ári eða smádjöfull eins og annarsstaðar á landinu, heldur einfaldlega barn/krakki.

t.d.              Þegar ég var púki var ég alltaf stilltur.
                   Hvar eru das púks?

 

Sími(dö)

Ef þú ætlar að reyna að finna einhvern í mannþvöguni sem á það til að vera niðrá

hátíðar svæði, er eina vitið að vera annaðhvort með labbrabb tæki, eða síma sem

er stútfullur af inneign.(það er alveg hreint ótrúlegt hve mikill peningur fer í:

haaa? já ég er hér , hvar ert þú?)

 

Fullorðinn einstakling

Ef þú ert manneskja í yngri kantinum, a.k.a. púki.  Þá legg ég til að þú takir með þér eitt stykki fullorðinn, það eru líkur á að þú getir platað hann til að kaupa fyrir þig pylsu og kók.  Fullorðið fólk hentar líkar feiknar vel sem upphækkun ef þú lætur þau taka þig á hestbak.    

 

Heyrnahlífar

Önnur ábending til smáþjóðarinnar(eða þeirra með viðkvæmar hlustir maður veit aldrei).  Lítil eyru geta átt erfitt með að höndla allt þetta stuð og rokk og gaman í fyrstu, svo það er sniðugt að vera með eitthvað til þess að vernda lítil eyru svo þau fái að njóta þessar upplifun sem best um ókomin ár.

  

Hlutir til að gleyma

 

En það er ekki nóg að muna eftir hinum ýmsu hlutum, það eru einnig sum atriði sem er betra að sleppa að hafa með sér á hátíðarsvæðið.

 

Bíll           

Hann gerir harla lítið gagn þarna niðreftir, það er mjög takmarkað magn af bílastæðum, og svo er bara yndislegt að taka sér smá göngutúr í páskablíðunni.  Þetta er nú líka Ísafjörður og stutt í allt sem er mikilvægt.

 

Fúla skapið

Það er löngu orðið þreytt að segja: takið með ykkur góða skapið!  Svo við bryddum upp á þessari nýjung að segja frekar: “Gleymið fúlaskapinu!”  Frumleg heit.is ekki satt?

 

iPodinn

Þú ert að mæta á frábæra tónlistarveislu með frábæru fólki, gleymdu honum, nuff said!

 

 

Og umfram allt annað, muna eftir stuðinu, rokkinu og góða skapinu. Og gleymið fúla skapinu!!