Birna Jónasdóttir | föstudagur 25. apríl 2014

Takk!

 

Eftir vel heppnaða og yndislega hátíð viljum við sem stöndum að Rokkhátíð alþýðunnar: Aldrei fór ég suður koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem gera okkur kleift að gleðjast saman og njóta góðrar tónlistar. Þar ber fyrst að nefna alla tónlistarmennina sem komu fram á hátíðinni. Það er ekki sjálfgefið að tónlistarmenn hvaðanæva af landinu ferðist um langan veg til að koma fram hátíð þar sem ekki er borguð króna fyrir þeirra framlag. Og ekki nóg með það, þegar tónlistarfólkinu var tilkynnt á síðustu stundu að flugið hefði verið fellt niður og þeirra biði 7 tíma rútuferð vestur þá heyrðist ekki múkk og allir voru í fílíng og heldur betur til í rútuferð. Þessi gjafmildi er eins og áður segir ekki sjálfsögð og væri sennilega ekki til staðar ef ekki væri fyrir góðar og hlýjar móttöku Ísfirðinga. Við búum svo vel að helstu bakhjarlar hátíðarinnar eru þeir sömu ár eftir ár, án þeirra væri ekki nein rokkhátíð. Flugfélag Íslands hefur stutt vel við bakið á hátíðinni frá upphafi. Landsbankinn hefur verið með okkur í mörg ár, sem og Samskip og Kraumur tónlistarsjóður. Orkusalan og Orkubú Vestfjarða hafa bæst við á síðustu árum. Þessum sex helstu bakhjörlum hátíðarinnar þökkum við kærlega fyrir samstarfið.

 

Hljóðmenn, ljósamenn og sviðsmenn sem koma ár eftir ár og standa vaktina eiga skilið eina góða fimmu.

Fjölmörg önnur fyrirtæki greiða götu hátíðarinnar. Má þar sem dæmi nefna H.V. umboðsverslun, Jakob Valgeir ehf., Kampa ehf., Gámaþjónustu Vestfjarða, Extón, Stuð ehf., Avis, Hótel Ísafjörð, Arna mjólkurvinnsla og N1.

Ísafjarðarbær er alltaf boðinn og búinn að hjálpa til og hvar værum við án karlanna í Áhaldahúsinu?

Foreldrafélag KFÍ og BÍ hafa verið í samstarfi við okkur í mörg ár og manna gæslu og veitingasölu og vonumst við til að það samstarf haldi áfram.

 

Fjöldi sjálfboðaliða sjá um minjagripasölu og gerð minjagripa og gera það vel. Salan er mikilvæg tekjulind hátíðarinnar.

Það er mjög upplífgandi að vera í skemmunni í uppsetningu hátíðarinnar og sjá þegar bæjarbúar kíkja við og athuga hvort þeir geti ekki aðstoðað eitthvað, hvort það vanti ekki vinnufúsar hendur.

Lögreglunni á Vestfjörðum og Slökkviliði Ísafjarðarbæjar viljum við þakka gott samstarf í ár sem fyrri ár.

 

Og að lokum viljum við þakka öllum þeim fjölda sem sótti hátíðina. Þið voruð frábær. Mörg þúsund manna rokkhátíð með tilheyrandi galsa og stuði fór fram án nokkurs vesens sem vert að minnast á. 

 

Takk fyrir okkur, gleðilegt sumar og sjáumst að ári!